Bleikur október er haldinn hátíðlegur ár hvert hér á landi við góðar undirtektir landsmanna. Þetta árið verður „Brjóstvits“-sápa til sölu þar sem hluti ágóðans rennur til Bleiku slaufunnar.
Málefnið á bleikum október snertir alla á einn eða annan máta, því er mikilvægi herferðarinnar nokkuð sem enginn má láta fram hjá sér fara. Bleika sápan gengur undir nafninu Brjóstvit og er hönnuð og framleidd af URÐ. Sápan minnir á konubrjóst, en á umbúðunum sjálfum má finna upplýsingar um brjóstakrabbamein. Markmiðið með sölu á sápunni er að fræða og vekja fólk til umhugsunar, og um leið styrkja Bleiku slaufuna.
Bleika sápan er náttúruleg og inniheldur hreinar ilmolíur, lavender og greip. Hver sápa er handgerð úr æðislegum hráefnum; íslenskri repjuolíu, kókosolíu og shea-smjöri. Sápurnar eru mótaðar eins og fjöll með dökkum toppi og er hver sápa einstök í útliti.
Af hverri seldri sápu renna 600 krónur til Bleiku slaufunnar. Stuðningurinn gerir Krabbameinsfélaginu kleift að veita þeim sem greinast með krabbamein og fjölskyldum þeirra fjölþætta þjónustu án endurgjalds, svo sem einstaklingsviðtöl, sálfræðiráðgjöf, stuðningshópa, námskeið, fræðslu og ráðgjöf um réttindi.
Brjóstvit á að vekja konur til umhugsunar um mikilvægi þess að þreifa og fylgjast reglulega með brjóstum sínum. Bleika sápan verður til sölu í Bleika boðinu sem verður haldið 30. september í Háskólabíói og í vefverslun krabb.is og urd.is.