Haldið ykkur fast því hér kemur endurgerð af einum besta kjúklingaborgara sögunnar. Það er engin önnur en Berglind Hreiðars á Gotteri.is sem á heiðurinn að þessari uppskrift sem þið verðið að prófa
„Chick-fil-A“ borgari
4 stykki
Kjúklingaborgari uppskrift
- 2 stórar kjúklingabringur
- 100 ml safi af súrum gúrkum í krukku
- 50 ml vatn
- 100 ml nýmjólk
- 1 egg
- 150 g hveiti
- 3 msk. flórsykur
- ½ tsk. lyftiduft
- 1 tsk. paprikuduft
- 1 tsk. hvítlauksduft
- 1 tsk. salt
- ½ tsk. pipar
- ½ tsk. chilliduft
- ½ tsk. cheyenne pipar
- Steikingarolía (um 400 ml)
- 4 þykkar ostsneiðar
- Byrjið á því að „buffa“ bringurnar niður með buffhamri og skipta þeim síðan í tvo hluta, svo úr verði fjögur stykki.
- Blandið vatni og safa af súrum gúrkum saman í skál og leggið kjúklingabringurnar í skálina. Reynið að láta vökvann þekja þær alveg, setjið í kæli í um 30 mínútur á meðan annað er undirbúið.
- Pískið saman egg og mjólk í eina skál og hveiti, flórsykur og krydd í aðra.
- Hitið steikingarolíu í djúpum potti. Þegar hún hefur náð um 175°C er hægt að byrja að steikja kjúklinginn (ég var með á stillingu 7 af 9 nánast allan tímann hjá mér).
- Byrjið á því að dýfa kjúklingabitnum í eggjablönduna, því næst í hveitiblönduna og þjappa vel hveiti alls staðar. Síðan setja varlega ofan í heita olíuna með töng.
- Steikið hvern bita í um 4-5 mínútur, snúið að minnsta kosti einu sinni á meðan.
- Raðið þeim á grind, setjið ostsneið strax ofan á og leyfið umfram olíu að leka af.
Chick-fil-A sósa uppskrift
- 100 g majónes
- 1 tsk. Dijon sinnep
- 3 tsk. gult sinnep
- 2 msk. BBQ sósa
- 2 msk. hunang
- ½ tsk. hvítlauksduft
- ½ tsk. paprikuduft
- 1 tsk. sítrónusafi
- Pískið allt saman og geymið í kæli fram að notkun.
Annað meðlæti og samsetning
- 1 poki vöfflufranskar
- 4 hamborgarabrauð
- Blaðsalat
- 1 buff-tómatur (eða 2 minni)
- Súrar gúrkur
- Bakið franskarnar samkvæmt leiðbeiningum á pakka. Gott að setja þær í ofninn á svipuðum tíma og þið byrjið að steikja kjúklinginn.
- Skerið niður tómat og salat og takið til súrar gúrkur.
- Steikið hamborgarabrauðin á pönnu, stutta stund á hvorri hlið.
- Raðið næst hamborgaranum saman: Smyrjið bæði brauðin með sósu, Leggið kálið neðst, því næst tómatinn, svo kjúklinginn og loks súru gúrkurnar.
- Berið fram með vöfflufrönskum og sósu.
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir