Það er alltaf gaman að frétta af Íslendingum sem eru að gera það gott í útlöndum. Blaðamanni barst til eyrna að íslensk kona hefði opnað veitingastað á lítilli eyju fyrir utan Fjón og datt í hug að slá á þráðinn og heyra af þessu ævintýri. Anna Marín Schram gaf sér tíma frá mjög svo annasömu veitingarekstrarlífi til að spjalla yfir hafið.
Anna Marín og maður hennar Carsten Holm opnuðu í sumar tapasbar á Langeland og hafa vinsældir hans farið langt fram úr öllum væntingum. Á eyjunni búa um tólf þúsund manns.
„Okkur hafði lengi dreymt um að opna gistiheimili eða lítinn kaffibar á Ítalíu eða einhvers staðar. Svo þegar kórónuveiran skall á vorum við mikið á Langeland þar sem við eigum sumarhús. Krakkarnir voru í fjarnámi þar. Það var svo mikið koddahjal í kórónunni, og þá kviknaði sú hugmynd að leita ekki langt yfir skammt heldur opna stað þar. Draumurinn gæti alveg eins gengið á Langeland. Við fórum þá að grennslast fyrir hvort einhvers staðar væri laust húsnæði og fljótlega fréttum við að einn kráareigandi væri látinn og að kráin færi væntanlega á sölu. Við gengum svo þar fram hjá og þá var akkúrat húseigandinn að skipta um lás. Við fengum að kíkja inn og þetta var hryllingur! Ein versta knæpa sem ég hef séð. Það var búið að reykja þarna inni í um hundrað ár. Ógeðslegt!“ segir Anna Marín og leggur áherslu á orðið.
„Svo fórum við í bakgarðinn, og hann var fullkominn! Þá hugsuðum við að þetta gæti gengið. Úr varð að gera eitthvað klikkað og opna þarna stað.“
Það fór svo að parið keypti allt húsnæðið en auk knæpunnar var íbúð á efri hæð.
„Það tók hálft ár að gera allt upp, bæði veitingastaðinn og íbúðina. Við þurftum að skrúbba alla veggi; það er erfitt fyrir fólk að skilja hversu mikið nikótín safnast í veggi, en við skrúbbuðum og skrúbbuðum og nikótínið lak niður veggina. Við þurftum að vera með grímur og súrefniskút,“ segir Anna Marín og viðurkennir að það séu kannski ýkjur að þau hafi notað súrefniskút.
„En okkur leið þannig! Við skrúbbuðum sem sagt hundrað ára gamalt tóbak af veggjunum og máluðum svo. Sums staðar þurftum við að fara sjö umferðir af því að nikótínið kom alltaf í gegn,“ segir hún og segir þau hafa skrúbbað upp gömlu borðin sem höfðu verið á knæpunni, enda eru þau mjög meðvituð um að endurnýta.
„Við opnuðum í júní og það er fyrst núna sem nikótínlyktin er að fara úr borðunum. En borðin voru flott og passa vel þarna inn. En við hentum út teppum sem voru á gólfum og endurnýjuðum bæði bað og eldhús,“ segir hún og segir þau hafa gert mikið sjálf, ásamt vinum sínum.
Hafið þið reynslu af kokkamennsku og veitingarekstri?
„Enga. Við sem erum ljósmyndari og blaðamaður, þetta „meikaði engan sens“,“ segir hún og hlær.
„Þetta var algjör kórónuákvörðun, ég veit ekki hvað við vorum að spá. Við ætluðum bara að dúlla okkur í eldhúsinu til skiptis og þjóna sjálf,“ segir hún og segir það ekki alveg hafa gengið upp. Fljótlega kom í ljós að eyjamenn og ferðamenn voru spenntir.
„Það var oft röð út á götu og maturinn kláraðist reglulega. Þetta er fyndið núna, en var hryllingur á meðan á þessu stóð. Það var svo mikið að gera, að ég fór hreinlega að gráta,“ segir hún og segir þau hafa séð að það þyrfti að ráða starfsfólk, enda réðu þau engan veginn við alla vinnuna.
„Núna erum við með sautján manns á launaskrá. Við erum stærsti kúnninn hjá bjórframleiðandanum á eyjunni. Við skiljum þetta ekki alveg.“
Innan raða starfsfólksins eru nú fjórir fastráðnir kokkar sem galdra fram matinn, sem er að mestu undir spænskum áhrifum.
„Við erum með góðan vínseðil og mjög góðan lókal bjór. Konseptið er að bjóða upp rétti sem hægt er að deila með fólki; þannig er hægt að smakka svo margt. Þetta er öðruvísi staður en hafði áður verið í eyjunni. Þarna er hægt að hittast eftir vinnu, fá sér vínglas eða flösku eða deila réttum. Nú eða fara út að borða um helgar, eitthvað annað en að fara á sama flatbökustaðinn helgi eftir helgi.“
Í dag er veitingareksturinn orðinn fullt starf hjá bæði Önnu Marín og Carsten.
„Það er skrifstofuvinna fyrstu þrjá daga vikunnnar og svo þarf að preppa og gera allt klárt og allt sem því fylgir, fullt af hlutum sem við vissum ekki að fylgdu svona rekstri,“ segir hún og hlær.
„Veitingastaðurinn heitir Gaardhaven sem er bakgarðurinn. Það er mjög huggulegt að sitja þarna úti í garði og fólk situr þar enn þótt komið sé haust.“
Ertu ánægð að hafa tekið þetta skref?
„Já, mjög. Þetta er það skemmtilegasta sem ég hef gert og ég er í essinu mínu,“ segir Anna Marín og segist hafa lært ótalmargt á þessu hálfa ári síðan þau opnuðu.
„Við erum að læra inn á hvað við kaupum mikið inn af mat. Við höfum þurft að læra af reynslunni og gert fullt af mistökum. Eiginlega öll mistök sem hægt er að gera, höfum við gert. Ég ætti kannski að opna hjálparsíma fyrir fólk sem er að byrja í rekstri,“ segir hún og hlær.
„Ég veit ekki hversu oft ég hef keypt vitlaust inn, til dæmis átta kassa af eggaldin í staðin fyrir átta stykki. Ég hafði ekkert að gera við öll þessi eggaldin,“ segir hún og hlær.
Ítarlegt viðtal er við Önnu Marín í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.