Í dag 10. nóvember verður kleinudeginum fagnað í fyrsta sinn og eru landsmenn hvattir til að gæða sér á einni kleinu í tilefni þess. Skiptir þá ekki máli hvort um sé að ræða heimagerða kleinu eða úr uppáhaldsbakaríi hvers og eins. Er markmið dagsins að skapa nýja og skemmtilega hefð og sýna kleinunni virðingu.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá vinum kleinunnar.
Fram kemur í tilkynningunni að alþekkt sé í nágrannalöndum okkar að vinsælt bakkelsi og aðrir réttir eigi sérstakan dag. Er þá meðal annars minnst á vöfflu- og kanilsnúðadaginn í Svíþjóð og pönnukökudaginn í Danmörku. Þykir því mikil synd að kleinan sem sé ekki síður mikilvæg íslenskri þjóðmenningu hafi ekki átt sinn eigin dag fram til þessa.
En hvers vegna í dag, gætu margir landsmenn spurt sig. Ef marka má vini kleinunnar þá er þessi tímasetning þaulhugsuð. „Fjölmörg rök eru fyrir því að haustið hendi vel. Íslendingar fagna bolludeginum á vorönn, og reyndar fjölmörkum öðrum dögum, en alræmt er að fagnaðarefni eru að fá að hausti. Þegar lægðirnar dynja á er notaleg tilhugsun að hittast með fjölskyldunni og steikja kleinur en dagurinn má þó ekki vera svo seint að hann keppi við laugabrauðsgerðina. Kleinur sem steiktar eru í nóvember má líka frysta og nýta á aðventunni. Fyrst og síðast er svo einfaldlega löngu kominn tími til að gera kleinunni hátt undir höfði og því ekki eftir neinu að bíða,“ segir í tilkynningunni.
Þá geta landsmenn fylgst með inn á Instagram-síðunni Kleinudagurinn þar sem ýmsum innblæstri er deilt og fólk hvatt til að deila myndum af sinni kleinu.