Selur bjór í stað samloka

Micro bar verður opnaður á Laugavegi 86 í húsnæði þar …
Micro bar verður opnaður á Laugavegi 86 í húsnæði þar sem Subway var áður. Micro bar var áður rekinn við Vesturgötu 2 niðri í bæ. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Kaldi endinn á Laugaveginum er aðeins að fara að volgna. Þarna mun lýðurinn tryllast,“ segir Árni Hafstað, eigandi brugghússins Gæðings og Micro bars. Árni rak Micro bar um árabil í miðbæ Reykjavíkur, síðast í kjallara hússins á Vesturgötu 2, en honum var lokað þegar kórónuveirubylgjan skall á. Hann hefur nú tryggt sér húsnæði á Laugavegi 86 og hyggst opna Micro bar að nýju á næstunni.

„Nú er það eiginlega undir æðri máttarvöldum komið hvenær það verður nákvæmlega, eða skrifræðisvöldum hjá borginni. Ég hef nú farið í gegnum þetta ferli fimm sinnum áður en samt tekst mér alltaf að flaska á einhverju í umsóknunum,“ segir veitingamaðurinn sem rekur auk þess Micro bar í Kópavogi þar sem brugghús Gæðings er einnig að finna.

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég vissi ekki hvað ég vildi gera þegar leigusamningurinn niðri í bæ rann út. En svo tók gamli, sæti kláðinn sig upp og ég ákvað að láta vaða á þetta eina ferðina enn. Ég vildi komast í ferðamannastrauminn sem er væntanlegur handan við hólinn. Það var ekkert spennandi húsnæði í Kvosinni en það var hins vegar fullt af lausu plássi á Laugavegi. Kvóti borgarinnar fyrir veitingastaði var aftur á móti uppurinn og það sama gilti um Hverfisgötu. Subway hafði verið í þessu plássi hérna upp frá svo ég stökk á það.“

Micro bar-skiltið er þegar komið upp og hefur vakið athygli vegfarenda. Árni kveðst vonast til þess að líf verði á þessum hluta Laugavegarins þegar fram líða stundir. „Það eru margir skemmtilegir staðir í kring; Eiríksson brasserí er á ská á móti og verið var að opna Grillhúsið hérna enn ofar. Fyrir ölóða eru svo góðir staðir í nágrenninu eins og Bruggstofan og Honkítonk BBQ.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert