Þegar eitt súkkulaði er ekki nóg, þá er öðru bætt saman við – hér eru nefnilega smákökur með ljósum og hvítum súkkulaðidropum. Uppskriftin er einföld, fljótleg og fullkomin á aðventunni að sögn Hildar Rutar, sem á heiðurinn að þeim.
Tvöföld súkkulaðiánægja í smákökum
Uppskrift gerir 26-28 smákökur
- 1,2 dl púðursykur
- 50 g smjör (við stofuhita)
- 1 egg
- 2 dl hvítir súkkulaðidropar frá Bowl and Basket
- 1 tsk vanilludropar
- 2 dl hveiti
- 1 tsk lyftiduft
- 1 dl möndlumjöl
- 1½ dl ljósir súkkulaðidropar frá Bowl and Basket.
Aðferð:
- Bræðið 1 dl af hvítu súkkulaði yfir vatnsbaði.
- Hrærið saman smjör og púðursykur.
- Bætið egginu saman við og hrærið þar til blandan verður létt og ljós.
- Bætið við hvíta súkkulaðinu og vanilludropum og hrærið.
- Sigtið hveiti og lyftidufti út í blönduna og hrærið.
- Að lokum bætið við möndlumjöli, 1 dl af hvítum súkkulaðidropum og 1½ dl af ljósum súkkulaðidropum. Hrærið rólega saman. Gott að kæla deigið í 30-60 mínútur.
- Notið teskeið og hendurnar til þess að móta litlar kúlur úr deiginu. Dreifið á smjörpappírsklædda bökunarplötu og passið að hafa gott bil á milli þeirra.
- Bakið við 180°C í 8-10 mínútur og njótið.
Smákökur með tvöfaldri súkkulaðiánægju.
Mbl.is/Hildur Rut Ingimarsdóttir