Desember er annasamur mánuður fyrir okkur öll – sama hversu tímaleg við ætlum okkur að vera með undirbúninginn, þá er alltaf eitthvað sem dettur af teinunum og gleymist. Við rákumst á góða ábendingu hjá sælkerabakaranum Gulla Arnar sem bendir góðfúslega á þessa staðreynd og minnir fólk jafnframt á að panta vörurnar sínar tímalega.
Það getur aukið á jólastressið að ætla sér eitthvað ákveðið fyrir jólin, og þegar við förum svo eftir því – þá grípum við í tómt. Best er að ákveða með góðum fyrirvara ef þú ætlar þér að panta ákveðnar vörur til að gulltryggja að þú fáir það sem þú óskar, þá sérstaklega það sem snýr að mat og bakkelsi. Við hér á matarvefnum leggjum til að fólk gefi sér tíma til að setjast niður og ákveða hvað það vilji hafa í matinn í kringum hátíðarnar og fari rakleiðis í það að leggja inn pantanir fyrir jólin, ef slík er raunin. Það mun strax létta á álaginu seinna í desember og tímanum má verja í annað en að finna „staðgengil“ fyrir uppáhalds kjötið eða sælkerabombuna sem fjölskyldan elskar. Við viljum allra síst raska góðum matarhefðum á þessum árstíma.