Þær harmafregnir berast frá Ölgerð Egils Skallagrímssonar að hvorki Hvítöl verði til sölu í ár né Jólaöl með appelsíni. Eingöngu verði boðið upp á sykurskert Jólaöl með appelsíni.
Ástæðan er sögð vera afkastageta verksmiðjunnar og alþjóðlegur dósaskortur.
Inn á heimasíðu Ölgerðarinnar segir:
Það eru ekki öll jól eins, kannski sem betur fer, og í ár er margt öðruvísi. Egils Jólaöl og appelsín er þannig aðeins til í sykurskertri útgáfu og ekkert heldur er Hvítölið í ár. Vissulega setur þetta mark sitt á jólahátíðina hjá einhverjum en þó við fegin vildum, þá hamlar bæði alþjóðlegur dósaskortur og afkastageta verksmiðjunnar því að við getum brugðist við fyrir þessi jól.
Okkur hjá Ölgerðinni þykir alltaf jafn leitt þegar fólk saknar einhvers og við áttum okkur á að fólk vill líka sitt hefðbundna Jólaöl og líka sitt Hvítöl. Þess vegna getum við lofað ykkur eftirfarandi. Ný og stærri verksmiðja sem Ölgerðin vinnur nú að því að reisa á lóð fyrirtækisins mun hringja inn hátíðirnar á næsta ári. Fyrir næstu jól mun Ölgerðin á ný bjóða upp á hefðbundið Egils Jólaöl og appelsín – og við gerum gott betur – því við ætlum að bjóða aftur upp á Hvítölið vinsæla. Það verða því svo sannarlega hefðbundin jól næst – og Ölgerðin hlakkar til að fylgja ykkur inn í þau, rétt eins og alltaf.