Súkkulaðineysla tengd minni hættu á hjarta- og æðasjúkdómum

Súkkulaði er allra meina bót.
Súkkulaði er allra meina bót. mbl.is/Jamie Oliver

Öll vitum við að hófleg súkkulaðineysla léttir lund og bætir geð. Það var því fáum sorgarefni þegar fréttir tóku að berast af því að mögulega væri súkkulaði ekki bara ljúffengt góðgæti heldur væri það beinlínis hollt fyrir okkur. Undanfarin ár hafa birst niðurstöður rannsókna sem benda til þess að neysla á súkkulaði geti haft góð áhrif á hjarta- og æðakerfi fólks.

Nú má segja að síðustu efasemdaröddunum um hollustu súkkulaðis hafi verið eytt því niðurstöður viðamikillar bandarískrar rannsóknar sem nýlega birtust í vísindatímaritinu The American Journal of Clinical Nutrition eru afgerandi. Rannsóknin, sem framkvæmd var á 188.447 hermönnum á eftirlaunum, sýndi að regluleg neysla súkkulaðis minnkaði hættuna á hjarta- og æðasjúkdómum um 8%-12%.

Rannsakendur taka fram að frekari rannsókna sé þörf til að komast að því hversu mikið magn af súkkulaði sé æskilegast að innbyrða. Í niðurstöðunum kemur þó fram að líklegar ástæður fyrir þessum jákvæðu áhrifum séu hátt kakóinnihald og magn flavonóíðs sem finnst í dökku súkkulaði en flavonóíð er efnasamband úr jurtaríkinu sem hefur andoxandi virkni. Samkvæmt því ætti að vera óhætt að mæla með reglulegri neyslu á dökku súkkulaði, fyrir bæði líkama og sál.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert