Jómfrúin í aldarfjórðung

Benjamín Bent Árnason, Jakob Einar Jakobsson og Brynjólfur Óli Árnason. …
Benjamín Bent Árnason, Jakob Einar Jakobsson og Brynjólfur Óli Árnason. Tindátinn Jóakim til vinstri. Kristinn Magnússon

Veitingastaðir koma og fara en Jómfrúin hefur verið á sínum stað í Lækjargötu í Reykjavík í aldarfjórðung. Af því tilefni sendi Jakob Einar Jakobsson, eigandi og framkvæmdastjóri fjölskyldufyrirtækisins, nýverið frá sér bókina Jómfrúin Dönsk og dejlig í 25 ár, sem Salka gefur út. „Við verðum áfram á tánum, vöndum okkur og ætlum að halda kúrsinum stöðugum í mörg ár til viðbótar.“

Jakob Jakobsson eldri og Guðmundur Guðjónsson hófu rekstur Jómfrúarinnar 1996. Þar hefur síðan verið boðið upp á smurbrauð, öl og snafs að danskri fyrirmynd auk þess sem torgið á bak við staðinn hefur nýst vel fyrir útiveitingar sem og djasstónleikaröð á laugardögum á sumrin.

Í formála bókarinnar segir Jakob að hún sé ástaróður til hennar sjálfrar og fólksins sem geri hana að því sem hún sé á hverjum degi. Gerð er grein fyrir upprunanum og upphafsmönnunum, en athygli vakti á sínum tíma að Jakob eldri var fyrsti karlmaður heims til að bera fagheitið smurbrauðsjómfrú. Hann lærði hjá Idu Davidsen, smurbrauðsjómfrú í Kaupmannahöfn, og er sér kafli um hana. Fjallað er um eigendaskiptin en Jakob yngri og Birgir Bieltvedt keyptu staðinn 2015 og Jakob eignaðist Jómfrúna að fullu í fyrra. Bræður hans, Brynjólfur Óli veitingastjóri og Benjamín Bent Árnasynir, vinna með honum auk annarra starfsmanna og er mikilvægi þeirra tíundað. Gerð er grein fyrir úrvali í mat og drykk, uppskriftir af matseðlinum fylgja og sumardjassinn fær sitt rými. „Hjá mjög mörgum er Jómfrúin svo mikið meira en veitingastaður,“ segir Jakob. „Hún er fastur sess í tilveru margra og mörgum þykir vænt um staðinn eins og lesa má í kaflanum Jómfrúin mín.“

Mikilvægur staður

Jakob segir að stöðugleiki í rekstri, viss íhaldsemi og traustar danskar matarhefðir hafi skipt miklu máli í vinsældunum, en Íslendingar séu að miklu leyti samofnir danskri menningu. „Í mér er mjög sterk skandinavísk taug eftir að hafa búið í Noregi í sjö ár og sama er að segja af pabba og bræðrum mínum.“

Undanfarin nær tvö ár hafa vægast sagt verið mjög óvenjuleg vegna heimsfaraldursins. Jakob leggur áherslu á að fjölskyldan hafi byggt upp staðinn af eigin rammleik og dugnaði en fjöldatakmarkanir hafi haft slæm áhrif á reksturinn. „25 ár í reykvískum veitingahúsaárum er heil eilífð, en á Jómfrúnni stöndum við vörð um hefðir sem vert er að varðveita. Mér finnst það ótrúlega gæjalegt og sú stefna hefur skilað okkur á þennan stað sem við erum á í dag.“

Um 11.000 manns hafa bókað borð á aðventunni en á sama tíma í fyrra þurfti að vísa flestum gestum frá vegna fjöldatakmarkana. „Fólk tók því ekki sérstaklega vel og það sýnir hvað stundin hér á þessum tíma er dýrmæt fyrir marga,“ segir Jakob. Hann bætir við að harðari fjöldatakmarkanir nú hefðu getað riðið staðnum að fullu. „Við erum fegnir að geta tekið á móti hátt í 100 manns í tveimur hólfum. Það skiptir Jómfrúna miklu máli og ekki síður gestina, fólk vill gera vel við sig og njóta lífsins hvort sem ríkir heimsfaraldur eður ei.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert