Sófi getur verið stór fjárfeesting inn á heimilið og þá ber að vanda valið til að kasta ekki peningunum út um gluggann. Hér koma nokkur heillaráð hvað það varðar.
Samhengið
Við þurfum að hugsa út í hvernig og hvar sófinn passar inn á heimilið. Heimili geta verið með marga og ólíka stíla, en reyndu samt að velja sófa sem tengir við önnur rými heimilisins því þá muntu vera ánægðari með hann til lengri tíma.
Litir
Litur er ekki bara litur. Litaval getur verulega breytt útliti húsgagna og hjálpað til við að skapa stemningu í rýminu. Sumir vilja hlýja liti en aðrir kjósa kalda tóna. Hvort sem er, þá á maður alls ekki að vera hræddur við að leika sér með liti, svo lengi sem maður hugsar það inn í stóra samhengið. Sófinn er hálfgerður skúlptúr stofunnar – eða réttara sagt hjarta stofunnar þar sem fjölskylda og gestir safnast saman.
Vertu skapandi
Hvort sem þú ert týpan sem elskar að breyta til í stofunni eða vilt bara hafa möguleikann á því að leika þér auðveldlega í rýminu gæti einingasófi verið málið fyrir þig. Sófar sem eru settir saman úr einingum geta verið góður kostur fyrir þá sem óska oftar eftir breytingum, því þannig geturðu breytt útliti sófans eftir þörfum. Búið til horn, gert sófann stærri eða minni eða raðað einingunum á móti hver annarri. Það er allt í boði!
Hvernig ætlar þú að nota sófann?
Fyrir marga er sófinn staðurinn til að slaka á eftir amstur dagsins, en hverjar eru þínar þarfir? Á að vera pláss fyrir alla fjölskylduna til að glápa saman á föstudagsræmu, eða er sófinn staðurinn „þinn“ til að leggjast út af með góða bók? Hér gætu vangaveltur eins og tunga, dýpri sæti, margir púðar o.s.frv. verið spurningar sem gott er að velta fyrir sér áður en haldið er af stað í sófaleiðangur.