Mexíkóskt kjúklingalasagna sem hittir í mark

Ljósmynd/Ingibjörg Ásbjörns

Ingibjörg Ásbjörns galdrar hér fram frekar geggjað kjúklingalasagna sem ætti að kæta flesta núna í janúarhversdagsleikanum.

Gómsætt í alla staði og með geggjuðu guacamole er fátt sem toppar þessa uppskrift.

Mexíkóskt kjúklingalasagna

Uppskrift:

  • 4 kjúklingabringur
  • 1 pakki tortillur (stórar)
  • 2 krukkur salsasósa
  • 1 dolla sýrður rjómi
  • 1 rauð paprika
  • 1 laukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 370 g rifinn ostur
  • 1 Mexíkóostur
  • 1 poki blár Doritos

Aðferð:

  1. Skerið papriku og lauk smátt.
  2. Skerið kjúklingabringur í litla munnbita.
  3. Hitið olíu á pönnu og steikið kjúklinginn þar til fulleldaður. Takið hann af pönnunni og setjið til hliðar.
  4. Setjið pönnuna aftur á helluna (ekki þvo á milli) og setjið smá olíu og hitið undir. Kreystið nú tvö hvítlauksrif og steikið í smá stund þar til þau vara að ilma.
  5. Bætið þá lauk og papriku út á pönnuna og steikið þar til fer að mýkjast. Slökkvið undir og setjið til hliðar.
  6. Setjið rifinn ost í skál. Rífið Mexíkóost og blandið honum saman við rifna ostinn.
  7. Núna er lasagnað sett saman. Setjið smá dropa af olíu í botninn á eldföstu móti og penslið botninn svo að lasagnað festist ekki við mótið. Raðið: tortilla – sýrður rjómi – paprika og laukur – kjúklingabitar – salsasósa – mulið Doritos – Rifinn ostur og rifinn Mexíkóostur. Endurtakið þannig þið fáið þrjár hæðir af hverju hráefni og endið á að strá rifnum osti yfir.
  8. Bakið í ofni við 180°C blástur í um 20 mínútur eða þar til osturinn er orðin gullin brúnn.
  9. Ég mæli með að bera réttinn fram með fersku heimagerðu guacamole! Sjá uppskrift hér að neðan.

Guacamole – uppskrift:

  • 3 velþroskaðar lárperur
  • 1 tómatur
  • 1 skarlot laukur
  • 2 msk kóríander
  • Safi úr 1 límónu
  • 1 hvítlauksrif
  • Salt og pipar

Aðferð:

  1. Takið lárperur úr hýðinu og fjarlægið steininn. Stappið lárperurnar gróft með gafli. Setjið svo í skál.
  2. Kreistið safann úr límónu yfir lárperumaukið.
  3. Skerið tómata og lauk mjög smátt og hrærið saman við lárperumaukið.
  4. Saxið kóríander smátt og blandið saman við lárperumaukið. Kreistið eitt hvítlauksrif út í og blanið saman við ásamt smá salti og pipar.
Ljósmynd/Ingibjörg Ásbjörns
Ljósmynd/Ingibjörg Ásbjörns
Ljósmynd/Ingibjörg Ásbjörns
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert