Ómótstæðileg bleikja Hildar Rutar

Ljósmynd/Hildur Rut

Hér erum við með geggjaða uppskrift sem er eiginlega akkúrat það sem maður þarf á að halda þessa dagana. Bleikja er einn besti fiskur sem um getur og meðlætið hér er ekki af verri endanum.

Það er Hildur Rut – ofurbloggari á Trendnet – sem á heiðurinn af þessari uppskrift.

Uppskrift fyrir þrjá (tvo fullorðna og eitt barn)

  • 600 g bleikja (þrjú lítil flök)
  • salt og pipar
  • 3-4 msk smjör
  • 1 chili, smátt skorið
  • 1 tsk ferskur engifer, rifinn
  • 3 hvítlauksrif, rifin eða pressuð
  • safi úr 1/2 sítrónu
  • 2 dl möndluflögur
  • 1-2 msk steinselja fersk, smátt söxuð

Bygg (ég útbý smá meira en við borðum)

  • 3 dl bygg 7,5-9 dl vatn
  • 2 tsk grænmetiskraftur
  • salt og pipar
  • 5-7 smátt skornar og bakaðar gulrætur
  • 1 dl Old amsterdam, rifinn
  • 1 dl Parmigiano reggiano, rifinn

Aðferð

  1. Leggið bleikjuflökin á bökunarplötu þakta bökunarpappír og saltið og piprið. Bræðið smjör í potti við vægan hita. Blandið chili, engifer, hvítlauksrifi, safa úr sítrónu, möndluflögum og ferskri steinselju saman við smjörið. Hrærið vel saman.
  2. Dreifið möndlublöndunni jafnt ofan á bleikjuflökin og bakið í ofni við 190°C á blæstri í 12-15 mínútur.

Bygg

  1. Setjið bygg og vatn ásamt grænmetiskrafti í pott og sjóðið í um 40 mínútur. Bætið við vatni eftir þörfum (mæli með að smakka sig til).
  2. Á meðan byggið sýður er gott að græja gulrætur. Skerið þær smátt og bakið með ólífuolíu, salti og pipar í 20-25 mínútur eða þar til þær eru fullbakaðar. Að lokum blandið gulrótunum, Old amsterdam, Parmigiano reggiano, salti og pipar við byggið. Verði ykkur að góðu.
Ljósmynd/Hildur Rut
Ljósmynd/Hildur Rut
Ljósmynd/Hildur Rut
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert