Óska eftir leyfi til að reka mathöll

„Þetta er á frumstigi og alveg óvíst hvað af verður,“ segir Vilhelm Patrick Bernhöft, eigandi jarðhæðar hússins númer 28 við Glerárgötu á Akureyri. Hann hefur sótt um leyfi til skipulagssviðs Akureyrarbæjar fyrir rekstri mathallar á jarðhæð hússins. Engin mathöll er starfandi á Akureyri.

Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir svæðið að því er fram kemur í bókun skipulagsráðs Akureyrarbæjar vegna fyrirspurnarinnar. Skipulagsráð hefur samþykkt að áform um rekstur mathallar fari í grenndarkynningu, en kynna þarf erindið fyrir húseigendum og rekstraraðilum í húsunum hvoru sínum megin, Glerárgötu 26 og Glerárgötu 30.

Vilhelm á jarðhæð hússins við Glerárgötu 28, en húsið allt er fimm hæðir. Ásprent var þar með rekstur um árabil, en félagið varð gjaldþrota á fyrri hluta síðasta árs. Prentmet Oddi leigir nú um það bil einn þriðja af jarðhæðinni undir sína starfsemi.

Um 1.000 fermetrar ónotaðir

„Það eru enn eftir um 1.000 fermetrar ónotaðir og við höfum eðlilega áhuga fyrir að leigja þá út,“ segir Vilhelm. Hann kveðst ekki sjálfur hafa hug á að reka mathöll á Akureyri heldur hafi erindi þess efnis borist frá öðrum sem áhuga hefur fyrir slíkum rekstri og er að kanna hvort húsnæðið við Glerárgötu fáist undir hann. „Við erum með alla anga úti að koma húsinu í notkun, en á þessu stigi vitum við ekki hvað verður. Fyrst er að bíða eftir svari frá Akureyrarbæ um hvort til þess fáist leyfi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert