Stórkostleg steik fyrir kvöldið

mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir

Ef það er einhverntíman tilefni til að fá sér geggjaða steik þá er það í kvöld! Meistari Berglind Hreiðars á Gotteri.is klikkar ekki og í raun þarf ekki að segja neitt meira um þessa snilldar uppskrift.

Nautasteik og meðlæti

Fyrir tvo

Nautasteik

  • 2 x nauta ribeye steik
  • 4 msk. soyasósa
  • 4 msk. Worcestershire sósa
  • 2 tsk. dijon sinnep
  • 1 msk. ferskt timian (saxað)
  • Pipar
  • Ólífuolía til steikingar

Aðferð:

  1. Blandið soyasósu, Worchestershire sósu, sinnepi og timian saman í skál, hellið í poka og komið steikunum fyrir í pokanum.
  2. Veltið kjötinu upp úr leginum og leyfið að liggja í pokanum við stofuhita í um 30 mínútur.
  3. Hellið þá öllum vökva af og þerrið þær aðeins.
  4. Hitið ólífuolíu á pönnu og steikið kjötið þar til það hefur náð þeim kjarnhita sem þið óskið. Piprið eftir smekk.
  5. Ég tók steikurnar af pönnunni þegar kjarnhiti var um 48°C, setti í álpappír og leyfi þeim að hvíla í honum þar til kjarnhiti var komin upp í um 56°C (med-rare). Þá má taka álpappírinn af og leyfa þeim að standa örlítið lengur áður en þeirra er notið.

Kartöflur

  • Um 500 g kartöflur
  • 50 g smjör
  • 1 msk. ferskt timian (saxað)
  • Salt, pipar, hvítlauksduft

Aðferð:

  1. Sjóðið kartöflurnar þar til þær mýkjast.
  2. Leyfið þeim aðeins að kólna, skerið þá í tvennt og steikið upp úr smjöri og kryddum þar til þær verða aðeins stökkar.

Bernaise sósa

  • 250 g smjör
  • 4 eggjarauður
  • 1 msk. Bernaise essence
  • 1 msk. Oscar nautakraftur (fljótandi)
  • 1 tsk. sítrónusafi
  • 2 msk. estragon
  • Salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Bræðið smjörið, leyfið því síðan að kólna niður á meðan annað er undirbúið. Smjörið á rétt að vera ylvolgt þegar því er hellt saman við þeyttar eggjarauðurnar (þá eru minni líkur á því að sósan skilji sig).
  2. Þeytið eggjarauðurnar þar til þær verða léttar, ljósar og farnar að þykkjast vel.
  3. Hellið ylvolgu smjörinu þá saman við í mjórri bunu og hrærið á lægsta hraða á meðan það blandast saman við.
  4. Bætið næst öðrum hráefnum saman við og hrærið saman, smakkið til og kryddið eftir smekk.
mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert