Þau stórtíðindi berast úr höfuðstöðvum Royal að nýr búðingur sé lentur í verslunum landsins. Alla jafna vekja slíkar fréttir mikla athygli enda Royal búðingarnir rótgrónir í þjóðarsálina en viðbrögðin við nýja búðingnum hafa þó verið enn meiri en venjulegt getur talist og hafa markaðssérfræðingar sagt að viðbrögðin gefi vísbendingar um að hér sé á ferðinni hin nýja Þristamús.
Að sögn Kristínar Rögnvaldsdóttur, sölustjóra, var farið í ítarlega rannsóknar- og greiningarvinnu hjá fyrirtækinu. „Við vildum fyrst og fremst búa til vöru sem viðskiptavinir okkar myndu elska og það var það sem við lögðum upp með. Við skoðuðum gaumgæfilega hvaða nammi það er sem er vinsælast og þar skoruðu hátt þær blöndur sem innihalda súkkulaði og lakkrís - svo ekki sé talað um þegar karamellukeimurinn blandast saman við.“ Nói Síríus var meira en til í samstarfið og eftir langar og strangar (og ákaflega spennandi) bragðprófanir reyndist Eitt Sett búðingurinn bera höfuð og herðar yfir meðbúðinga sína og varð því fyrir valinu.
Eitt Sett er, eins og flestir þekkja, rótgróið súkkulaði með lakkrís sem hefur verið gríðarlega vinsælt frá því að það kom fyrst á markað og segir Kristín að það hafi vegið þungt enda markmiðið að viðskiptavinir Royal fengju það allra besta.
„Fyrstu viðbrögð hafa verið gríðarleg. Samfélagsmiðlar loguðu hreinlega í gær og það voru allir að mynda búðinginn. Við vonum svo sannarlega að við séum að hitta í mark með búðinginn því Royal búðingarnir eru svo frábærir og einfaldir að það ráða allir við að búa þá til“, segir Kristín en Royal búðingar hafa verið framleiddir hér á landi í tæplega 70 ár og því mikilvægur þáttur í matarsögu landsins. Ég held að flestir eigi einhverjar minningar tengdar Royal búðingunum og það er gaman að við getum haldið þeirri hefð áfram og þróað vöruna um leið í takt við nútímann án þess þó að missa nokkuð af því sem gerir búðinginn svo einstakan.
Þeir kalla mig bara kónginn
Maðurinn á bak við framleiðsluna er Siggi Royal sem er mögulega einn sá hressasti á landinu. Allir sem ég hef hitt segja að búðingurinn sé frábær, segir Siggi hlægjandi en hann segir mikla tilhlökkun fylgja því að framleiða nýjan búðing. „Ég held að þetta sé eins og að eignast barn. Maður er spenntur að sjá hvað kemur,” segir Siggi kankvís en hann segist alltaf verið kallaður kóngurinn út af því hvar hann vinnur. Það hreinlega fylgi nafninu.
Siggi segir að hann sé í ákaflega öfundsverðu starfi. Hann elski Royal búðinginn og hann sé sá eini sem fái borgað fyrir að borða hann daglega. „Ég borða búðing flesta daga vikunnar en það er líka vegna þess að ég smakka allar blöndur áður en þeim er pakkað. Það þarf að passa upp á að allt sé í lagi,” segir Siggi en sjálfur blandar hann alltaf ⅕ rjóma út í búðinginn, þ.e. Setur 400 ml af nýmjólk og 100 af rjóma. Hann heldur sig yfirleitt við upprunalegt form búðingsins en setur stundum sykurbráð og bræðir yfir eins og gert er með Creme Brulee. Hann sé ekki mikill kökukall en hafi gaman að því að fylgjast með hvað fólk er að nota búðinginn í og hvernig. Aðspurður um uppáhaldsbúðinginn sinn segir hann að súkkulaðið hafi nú alltaf verið í fyrsta sæti hjá honum þó það hafi vikið tímabundið fyrir nýja Eitt Sett búðingnum sem sé algjört sælgæti.
Ljóst er að hér er um stórfréttir að ræða. Royal búðingarnir eru burðarstykki í mörgum íslenskum uppskriftum og ekki er bökuð sú Betty Crocker kaka án þess að einn pakki af Royal búðing sé hafður með en það var matarbloggarinn Berglind Hreiðarsdóttir sem byrjaði fyrst á því og hefur ekki hætt enda segir hún að Royal búðingurinn geri kökuna enn betri.
Ekki má heldur gleyma bolludags brjálæðinu en hugarflugi bollugerðarfólks virðast engin takmörk sett og eru Royal búðingarnir afar vinsælir í fyllingar. Þannig má fastlega reikna með að bollan í ár verði vatnsdeigsbolla með hindberjafyllingu, Eitt Sett-búðingi, kaffilíkjörsrjóma, suðusúkkulaðihjúp og hnetukurli frá Emmess. En þetta er bara hugmynd.
Nýja Þristamúsin?
Íslendingar eru þekktir fyrir að taka hlutina alla leið og fá æði fyrir hlutunum. Síðasta mataræðið sem gekk hér yfir var Þristamúsin ógurlega sem seldist í ótrúlegu magni og ruddi sér leið inn á eftirréttamatseðla um land allt. Hvort að nýji Royal-búðingurinn fyllir það skarð skal ósagt látið en ljóst er að Þristamúsin hefur fengið harða samkeppni. Það sem er þó einna skemmtilegast er að sjá hvaða afbrigði af Eitt Sett-búðingnum munu líta dagsins ljós. Ljóst er að matarbloggarar munu leika sér með hann, sem og almennir heimiliskokkar og má búast við spennandi útkomu. Þannig má reikna með búðingnum ofan á vöfflur, ís, inn í bollur, með stökkum hnetumulningi, blandað saman við aðra búðinga eða sem fyllingu í kökur. Möguleikarnir eru endalausir og það er einmitt það sem gerir Royal-búðinga svo skemmtilegt hráefni.