Fylltur kúrbítur með grænmeti, fetaosti, klettasalati og spæsí mæjó er hér á borðum. Fullkominn réttur á bröns borðið eða sem léttur og ljúffengur kvöldmatur. Ef fetaosturinn er tekinn út, þá er rétturinn orðinn vegan – að sögn Hildar Rutar sem á heiðurinn að uppskriftinni.
Grænmetisréttur sem fullkomnar brönsinn
- 1 kúrbítur
- Ólífuolía
- 1-2 dl brokkólí
- 1-2 dl blómkál
- 2-4 sveppir
- Laukduft
- Túrmerik
- Cumin
- Salt og pipar
- Stappaður fetaostur
- Klettasalat
Sósa
- 3 msk. majónes
- 1-2 tsk. Sambal oelek
Aðferð:
- Skerið kúrbít í tvennt og hreinsið innan úr honum með skeið. Leggið á bökunarplötu og dreifið olíu og smá salti yfir. Bakið í ofni við 200° í 30 mínútur.
- Á meðan, skerið brokkólí, blómkál og sveppi í bita og steikið á pönnu upp úr olíu. Kryddið með laukdufti, túrmeriki, kúmín, salti og pipar.
- Fyllið kúrbítinn með blómkáls-og brokkólíblöndunni og dreifið stöppuðum fetaosti yfir.
- Bakið kúrbítinn í 5-7 mínútur í viðbót. Toppið síðan með sósunni og klettasalati.
mbl.is/Hildur Rut Ingimarsdóttir