Hannaði stól fyrir leikhús og hlaut verðlaun

Anders Engholm Dohn með stólinn sem bar sigur úr bítum.
Anders Engholm Dohn með stólinn sem bar sigur úr bítum. Mbl.is/Montana

Ný stólahönnun fékk á dögunum verðlaun og verður settur í framleiðslu hjá stóru þekktu hönnunarfyrirtæki í Danmörku.

Vinsælu sjónvarpsþættirnir „Danmarks næste klassiker“, hafa nýverið lokið göngu sinni þar sem keppt er um að koma hönnun sinni á framfæri. Sá sem bar sigur úr bítum var Anders Engholm Dohn með smart stól sem hann hannaði fyrir leikhúsið Aveny-T. Og mun stóllinn fara í framleiðslu hjá engum öðrum en Montana Furniture sem hannar og framleiðir vörur frá meisturum á borð við Verner Panton, Jørgen Rasmussen og Jens Martin Skibsted svo eitthvað sé nefnt.

Dómararnir sögðu stólinn vera klassískan fyrir dönsku þjóðina og lofuðu hversu mikla áherslu Anders lagði á sjálfbærni í framleiðslu. Stóllinn er léttur að sjá og stílhreinn – umgjörðin er framleidd úr stáli en bak og sæti úr endurunnu plasti í samvinnu við fyrirtækið A Circular Design Studio, sem framleiðir vörur úr úrgangsplasti frá heimilum, fyrirtækjum og náttúrunni víðsvegar um Danmörku. Stóllinn er staflanlegur og má nota jafnt úti sem og inni, og er nú þegar fáanlegur á heimasíðu Montana.

Mbl.is/Montana
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert