Lúxus kósímatur fyrir lengra komna

Ljósmynd/Snorri Guðmunds

Góðir hlutir gerast hægt. Það á svo sannarlega við í þessu tilviki, en hér eru nautakinnar eldaðar í bragðmikilli rauðvínssósu í um 5 klst þar til þær hreinlega leka í sundur. Ekki láta tímann hræða ykkur því þetta er í raun sáraeinföld eldamennska. Það erfiðasta er bara að bíða eftir að maturinn verðir tilbúinn á meðan íbúðin fyllist af ljúffengri matarlyktinni, segir Snorri Guðmunds hjá Matur & Myndir um þessa uppskrift sem kveikir á bragðlaukunum svo um munar.

Hægeldaðar nautakinnar með rjómakenndri parmesan polentu

Fyrir 4

  • 1 kg nautakinnar / Hægt að panta hjá kjötbúðum með smá fyrirvara
  • 2 stilkar sellerí
  • 200 g hvítur perlulaukur
  • 200 g gulrætur
  • 150 g sveppir
  • 1,5 msk. nautakraftur (duft)
  • 1 heill hvítlaukur
  • 3 msk. tómatpúrra
  • 6 g sítrónublóðberg eða venjulegt garðablóðberg
  • 1 dós niðursoðnir tómatar (ég notaði San Marzano tómata)
  • 3 dl rauðvín
  • 200 g polenta / kallast einnig maísmjöl. Fínmalað helst.
  • 40 g parmesan ostur
  • 2 dl matreiðslurjómi
  • Hveiti eftir þörfum
  • Salt og pipar eftir smekk
  • Sprettur til skrauts eftir smekk (ég notaði rauðsprettur frá Sprettu)
  • Steinselja til skrauts eftir smekk

Aðferð:

  1. Forhitið ofn upp í 150°C með yfir og undirhita.
  2. Skrælið perlulauk ásamt öllum hvítlauknum. Skerið sveppi í fernt, gulrætur í munnbitastærðir og sellerí í bita.
  3. Skerið stærri nautakinnarnar í tvennt og saltið kjötið svo smá. Veltið kjötinu upp úr hveiti og brúnið vel á öllum hliðum í potti (helst steypujárnspotti). Það er best að brúna kjötið í tveimur skömmtum svo kjötið steikist sem best. Færið á disk til hliðar og geymið.
  4. Lækkið hitann ögn. Bætið perlulauk, hvítlauk, sveppum, gulrótum og sellerí út í pottinn og steikið þar til grænmetið er farið að taka smá lit. Saltið smá.
  5. Bætið tómatpúrru út í pottinn og steikið í 1-2 mín. Bætið rauðvíni út í pottinn og náið upp suðu. Bætið tómötum út í pottinn (kremjið tómatana í höndunum áður en þeim er bætt út í pottinn ef þið eruð að nota heila San Marzano tómata) ásamt kjötkrafti og sítrónublóðbergi/garðablóðbergi. Smakkið til með salti.
  6. Komið kjötinu aftur fyrir í pottinum, setjið lok á pottinn og setjið inn í ofn í 4-5 klst eða þar til kjötið er orðið lungamjúkt og losnar auðveldlega í sundur þegar togað er í það með 2 göfflum.
  7. Takið lokið af pottinum og fleytið mestu fitunni ofan af sósunni. Setjið pottinn aftur inn í ofn án loks og látið malla í um 30 mín á meðan parmesan polentan er útbúin.
  8. Rífið parmesan ost með fínu rifjárni. Setjið 800 ml af vatni í pott ásamt 2 dl af matreiðslurjóma og 1 msk af flögusalti. Náið upp suðu og pískið polentuna svo saman við í nokkrum skömmtum (annars er hætt við að klumpar myndist). Lækkið hitann í lága stillingu og hrærið reglulega í pottinum í um 15 mín. Bætið við ögn af vatni eða rjóma eftir þörfum en polentan á að vera rjómakennd og ekki stíf. Pískið að lokum vænni smjörklípu saman við polentuna ásamt rifnum parmesan osti. Smakkið til með salti.
Ljósmynd/Snorri Guðmunds
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert