Það er fljótlegra og auðveldara en þú heldur að taka til í eldhússkápunum.
mbl.is/Pinterest
Heimilið á til með að fyllast of fljótt af allskyns dóti og öðrum óþarfa. Hér er listi yfir þau atriði sem gott er að fara eftir til að taka ærlega til í eldhúsinu.
- Taktu allt úr skápunum, leirtau, potta og pönnur og annað sem þar er að geyma.
- Safnaðu saman þeim hlutum sem þú notar vikulega. Farðu vandlega yfir það sem þú notar aldrei eða sjaldan, eins og t.d. stóra súpupottinn.
- Taktu til hliðar þá hluti sem þú getur alls ekki verið án og safnaðu saman í aðra hrúgu þeim áhöldum sem þú notar ekki eins mikið. Ertu með tvennt af einhverju, t.d. tvo blandara? Þú þarft eflaust ekki tvennt af öllu. Taktu til hliðar það sem þú ert tilbúin/n að gefa eða farga.
- Farðu vel yfir öll plastílát. Vantar á einhver þeirra lok, eða eru þau enn nothæf. Hentu og hafðu eingöngu þau ílát sem þú getur notað.
- Farðu vel yfir þurrvörur eins og krydd. Athugaðu hvað er runnið út af dagsetningu og hentu.
- Þrífðu skápa og skúffur.
- Raðaðu aftur inn í skápana og sjáðu hvað plássið hefur aukist.
- Þú getur klappað sjálfri þér á bakið fyrir frábær störf!