Haldið ykkur fast því hér er á ferðini skinkubrauðréttur sem mun gera allt vitlaust. Við erum að tala um skinku, brædda osta, dýrindis fínerí og kröns á toppnum. Það er engin önnur en veisludrottningin Berglind Hreiðars á Gotteri.is sem á heiðurinn að þessar tímamóta snilld.
Heitur brauðréttur með pepperoni, skinku og krönsi
Uppskrift dugar í 2 frekar grunn föt/mót
- 14 hvítar brauðsneiðar
- 1 rauð paprika
- 1 Mexíkó kryddostur
- 1 Pepperoni kryddostur
- 100 g Philadelphia rjómaostur með sweet chili
- 700 ml rjómi
- 200 g skinka
- 80 g pepperoni (mini)
- Rifinn ostur
- Um ½ poki Maarud Potetgull með papriku
- Ólífuolía til steikingar
- Salt og pipar
Aðferð:
- Hitið ofninn í 180°C.
- Penslið tvö eldföst mót að innan með ólífuolíu/smjöri.
- Skerið skorpuna af brauðinu og rífið niður í bita yfir botninn á hvoru formi.
- Skerið paprikuna smátt og steikið upp úr ólífuolíu, saltið og piprið eftir smekk.
- Hellið helming rjómans á pönnuna, rífið báða kryddostana út í og blandið rjómaostinum líka saman við.
- Hrærið þar til ostar hafa bráðnað og bætið þá restinni af rjómanum á pönnuna og hrærið vel.
- Skerið skinkuna niður og dreifið yfir brauðið í forminu ásamt pepperoni.
- Hellið sósunni jafnt yfir brauðblönduna í hvoru formi fyrir sig, toppið með rifnum osti og bakið í 20 mínútur.
- Takið þá út, myljið snakkið gróft yfir og hitið í um 5 mínútur til viðbótar.
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir