Verslun 10-11 á Laugavegi hefur fengið rækilega andlitslyftingu. Framkvæmdir hafa staðið yfir af fullum krafti síðustu vikur og á dögunum opnaði verslunin að nýju með Bæjarins beztu pylsum og Sbarro pizzum innanborðs. „Við höfum endurgert allar innréttingar, baksvæði og tækjabúnað ásamt merkingum bæði að innan og utan og erum mjög stolt af nýju útliti“ segir Vífill Ingimarsson framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Orkunnar sem rekur verslanir 10-11.
Samhliða breytingunum hafa nú Bæjarins beztu pylsur og Sbarro pizza opnað staði sína innan veggja verslunarinnar. „Það er gaman að bæta úrval veitinga með þessum frábæru samstarfsaðilum okkar og bjóðum við þau hjartanlega velkomin í húsið,“ segir Vífill. Í tilefni opnunarinnar verða bæði pylsur og pizzur á sérstökum opnunartilboðum um helgina sem og tilboð hjá 10-11.
Verslanir 10-11 fögnuðu 30 ára rekstrarafmæli á síðasta ári. Með breytingunum á Laugavegi var samhliða hannað nýtt útlit bæði fyrir verslanirnar og markaðsefni þar sem litapallettan var uppfærð. „Við bætum við dökkgrænum og einkennandi lit en höldum samt alltaf í lime græna litinn sem hefur verið einkennandi fyrir verslanir 10-11 í áratugi,“ segir Brynja Guðjónsdóttir markaðsstjóri.
Þægindaverslanir 10-11 eru í dag á Laugavegi, Austurstræti og í komusal Keflavíkurflugvallar og eru opnar allan sólarhringinn. Hjá 10-11 er lögð áhersla á að grípa matvörur og tilbúna rétti „í einum grænum“. Næst verður unnið að endurbætum í Austurstræti.