Sérsmíðaði eitt svakalegasta borðstofuborð norðan alpafjalla

Ljósmynd/JAX

Hringborð eru þau allra vinsælustu um þessar mundir og ekki þykir síðra ef í miðjunni er snúningsdiskur eða Lazy Susan.

Úrvalið af slíkum borðum er víðast hvar nokkuð gott og möguleikarnir margir. Hins vegar geta stærðirnar verið ansi litlar og því greip úrræðasöm kona til þess ráðs að láta sérsmíða fyrir sig slíkt borð. Það var enginn annar en Jón Axel Ólafsson sem á og rekur JAX Handverk sem tók að sér verkið og er útkoman með því glæsilegra sem sést hefur.

Sjálfur fullyrðir Jón Axel að hér sé um að ræða stærsta hringborð í Norður Evrópu. Borðið er smíðað úr massívri eik, málað svart og er heilir 2.2 metrar í þvermál. Að auki er snúningsdiskurinn 1 metri í þvermál.

Alls geta 12 manns setið við borðið með góðu móti og má fastlega búast við því að það verði fremur skemmtileg matarboð sem verða haldin þar á næstu misserum enda fátt skemmtilegra en matarboð þar sem gestir geta horfst í augu enda verður flæði samræðna miklu betra.

Sjálfur er Jón Axel á fullu þessa dagana í smíði á útihúsgögnum enda fer að bresta á með sumri. Það dylst engum sem til þekkir að útvarpsmaðurinn, ólífuolíu-mógúllinn og handverksmaðurinn hefur nóg að gera.

Ljósmynd/JAX
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert