Fyrir alla þá sem hafa dreymt um að kúra í einhverskonar kartöflumús, þar sem mjúka „músin“ heldur utan um þig – þá er þetta svona næstum því á pari. Því nú getur þú gist inn í risastórri kartöflu í gegnum Airbnb.
Hér er þó ekki um raunverulega kartöflu að ræða, heldur mannvirki úr steinsteypu sem lítur út eins og kartafla. En þetta hýsi var gert til að fagna 75 ára afmæli Idaho kartöflunefndarinnar, og hefur verið á flakki um Bandaríkin síðustu sjö árin þar til í dag. Þegar ákveðið var að staðsetja kartöfluna á 400 hektara landi í Idaho, þá var því breytt í Airbnb íbúð.
Þegar litið er inn í hýsið, þá má sjá nýstárlegar innréttingar – bleika stóla, grænar plöntur, arinn og stórt hjónarúm. Hér er þó ekkert eldhús að finna, en þó er lítið baðherbergi. Nóttin kostar litlar 26 þúsund krónur fyrir utan þjónustu og þrifgjalds og þess má geta að kartaflan er uppbókuð fram í júlí á þessu ári ef einhver var að velta því fyrir sér að gista.