Hamborgarhryggurinn sem hittir í mark

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Ef einhver er með meirapróf í veisluhöldum þá er það Berglind Hreiðars á Gotteri.is. Hér er hún með enn eina tímamóstasnilldina sem smellpassar á veisluborðið.

Sjálf segir Berglind að hana hafi langað að prófa að gera léttara meðlæti í klassískum dúr. Það tókst upp á tíu en hér notar Berglind Ali hamborgarhrygginn sem hún er ákaflega hrifin af enda sé hann léttur, bragðgóður og alls ekki of saltur.

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Hamborgarhryggur með léttara meðlæti

Fyrir 5-7 manns

Hamborgarhryggur og gljái uppskrift

  • Ali hamborgarhryggur um 2,5 kg
  • 1 l vatn
  • 160 g púðursykur
  • 50 ml rauðvínsedik
  • 50 ml rjómi
  • 3 msk. appelsínusafi (úr appelsínu)
  • 3 sneiðar af appelsínu

Aðferð:

  1. Byrjið á því að útbúa gljáann með því að sjóða saman púðursykur og edik. Leyfið að sjóða aðeins og bætið þá rjóma og appelsínusafa saman við. Hitið að suðu að nýju og lækkið síðan hitann og leyfið að malla við lágan hita þar til sykurinn er uppleystur.
  2. Hellið 1 l af vatni í ofnskúffu neðst í ofninum og stillið hitann á 150°C.
  3. Setjið hamborgarhrygginn á ofngrind, penslið 1 x með gljáanum. Stingið kjöthitamæli inn í hann miðjan og komið grindinni fyrir í ofninum fyrir ofan skúffuna með vatninu. Penslið 1-2 x á hrygginn á meðan hann er í ofninum á þessum tíma. Ef þið eigið ekki kjöthitamæli er gott að miða eldunartíma við 45 mín til klukkustund á hvert kíló.
  4. Eldið hrygginn með þessum hætti þar til kjarnhiti sýnir um 55°C og hækkið þá hitann í 210°C, setjið appelsínusneiðarnar ofan á og penslið aftur með gljáa. Eldið þar til kjarnhiti sýnir 67°C og leyfið þá hryggnum að standa í að minnsta kosti 15 mínútur áður en hann er skorinn í sneiðar. Áður en hryggurinn er skorinn má setja eina lokaumferð af gljáa yfir appelsínurnar.
  5. Geymið soðið sem eftir stendur í skúffunni og restina af gljáanum þar til það kemur að sósugerð.

Sósa uppskrift

  • ½ laukur
  • 50 g smjör
  • 50 ml rauðvínsedik
  • 500 ml kjötsoð (eða vatn + kraftur)
  • 500 ml rjómi
  • 100 ml af gljáa
  • Sósulitur
  • Salt og pipar
  • Maizena sósujafnari

Aðferð:

  1. Saxið laukinn smátt og steikið upp úr smjöri, kryddið með salti og pipar.
  2. Hellið edikinu yfir laukinn þegar hann er búinn að mýkjast og leyfið því að sjóða niður.
  3. Bætið þá sigtuðu soði frá hryggnum/vatni + krafti í pottinn ásamt rjóma og gljáa.
  4. Smakkið til með salti, pipar og meiri krafti ef ykkur finnst þurfa og leyfið að malla.
  5. Þykkið síðan með Maizenamjöli og litið með sósulit ef þið viljið brúna áferð.

Smjörsteiktar kartöflur

  • 1 kg forsoðnar kartöflur (litlar)
  • 70 g smjör
  • 3  hvítlauksrif
  • 1 msk. saxað timian
  • Salt og pipar
  1. Bræðið smjörið á pönnunni og hellið kartöflum út á ásamt því að rífa hvítlaukinn yfir.
  2. Veltið um á meðalháum hita þar til kartöflurnar eru heitar í gegn og kryddið eftir smekk.

Páskasalat

  • 2 Pink lady epli (3 ef þau eru lítil)
  • 1 mangó
  • 50 g möndlur með hýði
  • 30 g dökkt súkkulaði
  • 100 g sýrður rjómi
  • 150 ml þeyttur rjómi
  • 1 msk. sykur
  • 1 tsk. salt

Aðferð:

  1. Flysjið eplin og skerið smátt niður, setjið í skál.
  2. Skerið mangó einnig smátt saman og bætið saman við eplin.
  3. Skerið möndlur gróft niður og saxið súkkulaðið smátt, bætið saman við ávextina.
  4. Hrærið sýrða rjómanum ásamt sykri og salti næst saman við.
  5. Að lokum má vefja þeytta rjómanum saman við allt með sleikju.
  6. Geymið í kæli fram að notkun.

- - -

Fylgstu með Mat­ar­vefn­um á In­sta­gram og Face­book. Enda­laus æv­in­týri, hug­mynd­ir, skemmti­leg­ir leik­ir og allt það heit­asta heita ...

Svo megið þið endi­lega tagga okk­ur á In­sta­gram þegar þið eruð að elda eitt­hvað spenn­andi @mat­ur.a.mbl

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka