Karitas María þjálfari í Homefit og WorldClass ef hafsjór fróðleiks þegar kemur að hollu mataræði og hreyfingu. Hún kennir vinsæl námskeið í World Class, bæði pilates, barre og HIIT pilates. Að auki býður hún upp á heimaþjálfun í HomeFit sem slegið hefur rækilega í gegn enda þykir Karitas frábær kennari. Okkur lék forvitni á að vita hvernig daglegri rútínu Karitasar er háttað og hvað hún er helst að borða. Ekki spillir fyrir að hún lumar á góðum ráðum fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref en það eru einmitt þau sem oft eru þyngst.
Hvernig er dagleg rútína?
Ég byrja alla daga á að taka skot af Franklys sem er blanda af engifer, turmerik og chilli. Svo mixar maðurinn minn skot sem inniheldur spirulínu, eplaedik, rauðrófuduft, vatn og kanil. Svo fæ ég mér vítamínin mín. Svo fæ ég mér vítamínin mín. Age Rewind Skin Therapy kollagen frá Feel Iceland sem inniheldur Hyaluronic sýru fyrir húðina og Eve frá Now sem er fjölvítamín sérstaklega hannað fyrir konur.
Ég bíð svo oftast með fyrstu máltíðina þangað til eftir kennslu/æfingu. Þá fæ ég mér mjög oft smoothie skál eða egg og avocado.
Dagurinn fer svo bæði í að þjálfa í World Class og svo að taka upp heimaæfingar fyrir HomeFit. Svo er það þetta að sækja í skóla og þá tekur við að skutla á æfingar, við förum mjög oft í sund og svo bara elda og koma öllum í bólið.
Hvað passar þú helst upp á í mataræðinu þínu?
Ég passa að borða fjölbreytta fæðu svo að ég fái góða næringu til að geta viðhaldið góðri orku yfir daginn. Það eru ótal aðferðir um hvað sé best að gera varðandi mataræðið og ég skil vel að fólki geti fundist þetta mjög flókið. Mitt ráð er að velja helst sem minnst unnin matvæli, því fleiri innihaldsefni sem því meira ættir þú að takmarka inntökuna. Gott er að setja sér það markmið að hver máltíð innihaldi lit, getum gert það með að bæta við grænmeti, ávöxtum, hnetum, fræjum og baunum.
Hvaða ráð getur þú gefið þeim sem eru að reyna að bæta lífstílinn?
Ég mæli alltaf með því að byrja setja sér raunhæf markmið. Byrja á að innleiða hreyfingu og hollt mataræði í nokkrum skrefum. Hollt mataræði hefur áhrif á heilsu okkar og orkustig.
Takmarkanir í mataræði eru kannski ekki alltaf rétta leiðin og geta verið yfirþyrmandi og ekki góðar til lengri tíma. Það er svo oft sem við ætlum okkur að „hætta öllu nammi", „byrja að fasta", „taka ketó" o.s.frv. Þarna erum við oft þá að breyta venjum okkar í einni lotu en svo stórar aðgerðir misheppnast oft. Ég ráðlegg ykkur að leggja áherslu á jafnvægi í matarvenjum; að þið reynið að borða hollan og hreinan mat oftast en leyfið ykkur smá sætt inn á milli. Gott er að hugsa fæðuna sem eldsneyti sem nærir bæði líkama og sál. Ef við þróum með okkur yfirvegaða nálgun á mat og næringu þá er gott t.d. að byrja að skoða fyrstu máltið, bæta hana og prufa það í smá tíma. Taka svo næstu máltíð fyrir og svo koll af kolli. Þarna er líklegra að þessar máltíðir verði að vana og þá er líklegra að við endumst lengur í því. Það er eins með hreyfingu. Mikilvægt er að hreyfingin sé skemmtileg og veiti viðkomandi gleði og vellíðan því þá er líka líklegra að hreyfing verði að vana. Það þarf hver og einn að finna hvað hentar sér. Það er ótrúlega margt í boði og því ættu allir að geta fundið sér hreyfingu sem henta sér. Ég mæli oft með að finna sér félaga til að æfa með, setja gott podcast eða tónlist í eyrun, sækja hóptíma, námskeið eða fá leiðsögn ef maður er að byrja. Svo er bara gott að taka lítil skref þegar maður er að byrja svo að maður sprengi sig ekki strax í byrjun.
Hver er uppáhalds maturinn þinn?
Góð spurning! Ég á mér engann uppáhalds mat en góð steik og sushi er það fyrsta sem poppar upp.
Uppáhalds veitingastaður?
Kol þegar ég fer fínt annars er það Rossopomodoro hjá honum pabba mínum.
Fjölskylduhreyfingin?
Við förum á skíði, göngutúra og svo er búið að breyta stofunni í fótboltavöll :)
Skemmtilegast að gera?
Ætli það sé ekki að eiga góða stund með fjölskyldu og vinum. Mér finnst alveg geggjað að geta farið með alla fjölskylduna á skíði og frábært að sjá hvað lítil kríli geta verið ótrúlega dugleg í þeirri íþrótt.
Fyrir þá sem hafa áhuga á heimaæfingunum hjá henni er ráðlagt að senda henni skilaboð í gegnum Instagram (sjá hér að neðan) en heimasíða er væntanleg á næstunni.