Það er veisla þessa dagana! Því Hönnunarmars er í fullum gangi og ýmsar nýjungar eru að spretta upp eins og sumarblóm í haga. Og eitt af því sem við sjáum nýtt á matseðli, eru diskar frá Ingu Elínu.
Sýningin ‘The Cloud’ opnaði í Inga Elín Gallerí nú á Hönnunarmars. Þar kynnti Inga Elín svokallaða Skýjadiska í stíl við Veltibollana sem við höfum áður minnst á hér á matarvefnum - en mikil eftirvænting hefur verið fyrir diskunum. Óreglulegt formið minnir óneitanlega á ský, en diskarnir eru hugsaðir undir kökur, konfekt, sushi og aðra smárétti. Í upphafi verða diskarnir í 14 mismunandi mynstrum og eru það allt mynstur sem hafa áður verið á Veltibollunum. Það er ljóst að fólk hefur gaman af því að setja saman sitt persónulega stell og verður því mynstrunum fjölgað í næstu framleiðslu og jafnvel að hafa fjöldann svipaðan og á bollunum.
Hægt er að skoða diskana nánar í galleríinu hjá Ingu Elínu á Skólavörðustíg 5 eða í versluninni Epal.