Tobba Marínós og Katrín Amni í spennandi samstarf

Tobba Marínós og Katrín Amni.
Tobba Marínós og Katrín Amni. Ljósmynd/Ásta Krisjánsdóttir

Litabombur trylla landið

„Lífið er betra í lit og það sama gildir um mat,” segir Tobba Marinósdóttir athafnakona og eigandi Granólabarsins þegar hún er spurð út í Litabombur - nýjasta afrek hennar og Katrínar Amni, eins eiganda Kavita ehf., sem meðal annars framleiðir bætiefnin frá ICEHERBS.

„Litabombur eru hylki líkt og við þekkjum úr vítamíngeiranum en þessi hylki innihalda ofurfæðurnar túrmerik, rauðrófu, bláa spírúlínu og hveitigras. Í hverju glasi eru 80 blönduð hylki með innihaldi sem litaglaðir einhyrningaelskandi flipparar geta opnað og hellt út í nánast hvað sem er til að fá lit. Ég lita jógúrt, sósur, smjörkrem, baðvatn, poppkorn, drykki og kókosmjöl sem dæmi. Ég hef líka prófað að vatnslita með duftinu og lita flíkur. Það er í raun galið að vera að nota matarliti sem innihalda allskyns óæskileg efni þegar hægt er að nota 100% náttúruleg efni sem gefa þér um leið vítamín og allskyns góða virkni,” segir Tobba sem hefur um árabil notað ofurfæðu til að lita gúmmelaðið sem hún galdrar í eldhúsinu bæði heima og á Granólabarnum.

Ofurhetjur í eldhúsinu

Katrín og Tobba þekkjast frá því að þær voru unglingar í Kópavogi á þeim árum þegar Skittles var bannað á Íslandi einmitt vegna litarefna. Mikið hefur breyst síðan þá - nema einmitt gleðin við að borða marglitan mat og gúmmelaði.

Tobba segir að hingað til hafi verið hægt að kaupa náttúruleg duft til að lita mat en þau sé almennt mjög dýr og kaupa þurfi marga poka til að fá grunnlitina fjóra. „Okkur Katrínu fannst tilvalið að smella þessu saman til að fólk gæti prófað alla litina án þess að það kostaði fúlgu.”

„Hver vill ekki vera ofurhetja í eldhúsinu og geta borið fram fjólublátt blómkál eða blá hrísgrjón? Það besta er að lítið sem ekkert bragð er að duftinu svo það stuðar ekki bragðlaukana,” segir Katrín sem líkt og Tobba er móðir tveggja stúlkna og þekkir vel „einhyrningaáhrifin.” 

„Allt í lit er svo miklu meira spennandi og um leið finnst dætrum okkar gaman að vita að það sé ofurkraftur í litunum.”

„Til að toppa snilldina getur fullorðna fólkið svo gleypt hylkin til sér heilsubótar. Tvö gul hylki af túrmerik eru til dæmis mjög góð við bólgum og þrota og rauðu hylkin innihalda rauðrófu sem vinnur gegn þrek- og blóðleysi,” segir Tobba.

„Bomburnar komu í Bónusverslanir í gær og salan hefur farið mjög vel af stað. Við vonumst til þess að anna eftirspurn og koma þeim í fleiri verslanir fljótlega. Það er alveg óþarfi að drekka nokkuð annað en regnbogann í sumar,” segir Katrín og vonar að flipparar landsins taki Litabombunum fagnandi.

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
Ljósmynd/Íris Ann Sigurðardóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert