Þegar veitingar vekja athygli í veislum þá mætir matarvefurinn á svæðið til að taka þær út. Og það er nákvæmlega það sem við gerðum í þessu tilviki þegar við laumuðumst inn í útskriftarveislu í Gerðunum – en þar var nýstúdentinn í óða önn að undirbúa veisluhöld dagsins ásamt fjölskyldunni.
Útskriftir og annars konar stórviðburðir eru í algleymi þessa dagana og margir sem njóta þess að geta loksins fagnað með sínu nánasta fólki án allra takmarkanna. Í þessari veislu voru veisluborðin að svigna undan girnilegum veitingum sem flestar komu frá veisluþjónustunni Nomy. Eins var metra langur gnægtarbakki sem sló heldur betur gegn hjá veislugestum – yfirfullur af gúrme ostum, ávöxtum, hvers kyns skinkum, hnetum, súkkulaði og öðrum sætindum. Utandyra mátti svo finna tjald með sannkallaðri garðpartístemningu – gashitara, bar og setustofu. Eftir því sem við komumst næst heppnaðist veislan vel og enginn gestur sem yfirgaf veisluna á fastandi maga en myndirnar ættu að tala sínu máli.