Hér er helgarsteikin sem klikkar aldrei! Rib-eye með heimalöguðu kryddsmjöri og trufflu kartöflumús í boði Snorra Guðmunds.
Rib-eye með heimalöguðu kryddsmjöri (fyrir tvo)
- Ribeye, 2x 250 g
- Bökunarkartöflur forsoðnar, 2 stk sirka
- Rjómaostur, 45 ml
- Rjómi, 80 ml
- Parmesanostur, 20 g
- Truffluolía, 1-1,5 tsk / Elle Essen
- Graslaukur, 4 g
- Smjör, 60 ml / við stofuhita
- Hvítlauksrif, 2 lítil eða 1 stórt
- Steinselja, 2 msk söxuð
- Sítróna, 1 stk
Aðferð:
- Pressið hvítlauksrif og rífið um 2 tsk. af sítrónuberki (varist að taka hvíta undirlagið með). Blandið saman hvítlauk, smjöri, saxaðri steinselju og sítrónuberki. Smakkið til með salti. Vefjið inn í matarfilmu eða smjörpappír og myndið lengju. Kælið.
- Takið kjötið úr kæli amk 1 klst fyrir eldun, en það mun hjálpa til við jafnari og betri eldun.
- Nuddið kjötið með olíu og saltið rausnarlega. Piprið eftir smekk.
- Skrælið bökunarkartöflurnar og setjið í lítinn pott með rjómaosti og rjóma. Stappið saman og hitið við miðlungshita þar til heitt í gegn. Rífið parmesanost saman við og blandið vandlega saman við ásamt truffluolíu (byrjið á helmning og smakkið ykkur svo til). Smakkið til með salti. Sneiðið graslauk rétt áður en maturinn er borinn fram og hrærið saman við kartöflumúsina.
- Hitið olíu á pönnu við meðalháan hita og steikið steikurnar í 3-4 mín á hvorri hlið eða þar til kjötið hefur náð 55 °C kjarnhita fyrir medium rare. Þá er gott að notast við kjöthitamæli. Gott er að bæta smjörklípu út á pönnuna og dreypa bráðnu smjörinu yfir kjötið á meðan það steikist síðustu 2 mín. Leyfið kjötinu að hvíla í um 5 mín áður en það er borið fram.
- Berið fram með góðu salati.