Tómas Arnar Þorláksson
Öll borð á veitingastaðnum Óx eru bókuð næstu þrjá mánuðina eftir að staðurinn var heiðraður með Michelin-stjörnu í byrjun júlí í Stafangri í Noregi. Staðurinn, sem er inn af Sumac á Laugavegi 28, mun færa sig um set í september en þá munu fimm sæti bætast við sætafjöldann á staðnum. Þráinn Freyr Vigfússon, eigandi Óx, reiknar með að hægt verði að panta borð á staðnum þegar að því kemur.
Aðspurður segir Þráinn að þau hafi fengið ansi mikið af bókunum eftir að Óx fékk stjörnuna eftirsóttu. Næsta sólarhring á eftir hefðu borist fyrirspurnir frá rúmlega 230 manns. Hann bætir við að margir þeirra sem hringdu neyddust til þess að skrá sig á biðlista. „Það er næstum uppbókað hjá okkur næstu þrjá mánuðina og margir á biðlista,“ segir Þráinn og bætir við að mögulega sé eitthvað laust í október.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag.