Í Melbourne má finna stórbrotið eldhús sem hefur fengið yfirhalningu – hér mætast tveir heimar sem fullkomna hvorn annan eins og best verður á kosið.
Hönnuðurnir Sanders & King eiga heiðurinn að breytingunum þar sem hinn nútíma ástralski stíll blandast saman við sveitarómantíkina. Húsið er staðsett í bakgarði heimilisins þar sem hönnuðurnir voru beðnir um að útbúa griðarstað fyrir fullorðnu börn húseigandans – til að slaka á og skemmta sér. Eins á rýmið að vera notað fyrir viðburði enda með útgengt aðgengi að gríðarlegu garðflæmi ásamt sundlaug.
Hurðarnar í húsinu vekja ómælda athygli, en hér um ræðir massívar rennihurðar sem passa rýminu vel – þar sem hrátt timbur, málaðir múrsteinar og hvítþvegnir litatónar eru allsráðandi. Rúsínan í pylsuendanum er síðan eldhúsið, þar sem má sjá Carrara marmara sem tónar fallega við viðarinnréttinguna. Blár frístandandi rafmagnsofn er að öllu leiti stjarnan í rýminu og á veggjum hanga ljós frá Bestlite. Haldið hefur verið í rauðleitar gólfflísarnar sem gefa sjarmann við nútíma eldhúsinnréttinguna þar sem engir efriskápar eru sjáanlegir – því hér ræður einfaldleikinn ríkjum. Hægt er að skoða eignina nánar HÉR.