Svívirðilega góð samloka með svakalegri sósu

Ljósmynd/Linda Ben

Linda Ben á heiðurinn að þessari samloku sem tikkar í flest box. Girnileg, góð og seðjandi – eiginlega alslemma eins og einhver myndi segja.

„Hér höfum við æðislegar samlokur með ljúffengri fetaostasósu og grænmeti. Fetaostasósan er alveg himnesk en hún passar með alveg ótrúlega mörgu. Einhverjir muna mögulega eftir því þegar ég smellti henni með kartöflubátum sem kom rosalega vel út. Einnig hef ég prófað hana með grillkjöti og mörgu öðru og slær hún alltaf í gegn. Ekki er hún bara bragðgóð heldur ein sú allra einfaldasta sem þú smellir í. Aðeins tvö hráefni, salatostur og majónes,“ segir Linda um þessa sósu sem er eitthvað sem allir ættu að prófa.

Samlokur með fetaostasósu í nestið

  • Súrdeigsbrauð (eða annað gott brauð)
  • 130 g salatostur frá Örnu Mjólkurvörum
  • 2 msk. majónes
  • Sveppir
  • 2 msk. smjör
  • Salat
  • Paprika
  • Tómatar

Aðferð:

  1. Skerið brauðið í sneiðar.
  2. Setjið fetaostinn án olíunnar í skál og maukið ostinn með gaffli, blandið saman við majónesi. Smyrjið sósunni á samlokubrauðin.
  3. Skerið sveppina niður í sneiðar, steikið á pönnu upp úr smjöri og setjið á brauðin ásamt grænmetinu, lokið samlokunum og pakkið t.d. inn í smjörpappír.
Ljósmynd/Linda Ben
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert