Í miðri Kaupmannahöfn er hótelið 25hours að finna – og þar er einnig Café Duse staðsett á hótelinu. Fyrir þá sem eru ekki að kveikja þá er hótelið/kaffihúsið við hliðina á Sívalaturni.
Það er hér sem hjartað slær sem hraðast hjá þeim sem elska góðar kökur og sætabrauðsrétti. Eins fyrir þá sem vilja njóta og slaka á í guðdómlega fallegu umhverfi með kræsingar á diski og gott kaffi eða kampavín í glasi fyrir þá sem það kjósa.
Fyrir fimmtán árum síðan tók hin ítalska Melissa Forti á því að baka sérrétti sér til ánægju og út frá því kviknaði áhugi á að þefa uppi gamlar og gleymdar ítalskar uppskriftir – sem hún síðan blandaði saman við aðrar nýrri, sem hún hefur sankað að sér víðsvegar að úr heiminum. Í dag er hún þekkt fyrir einstakan stíl í eldhúsinu sem gælir við bragðlaukana þá bæði með ilmi og áferð og má upplifa á Duse.
Kaffihúsið er nefnt eftir ítölsku leikkonunni Eleonoru Giulia Amalia Duse – betur þekkt undir nafninu Duse. En leikkonan er þekkt fyrir að umbreyta leikhúsheiminum og fór meðal annars í heimstúr þar sem Kaupmannahöfn var á meðal viðkomustaða, árið 1906. Melissa segir í fréttatilkynningu að hún vilji heiðra þessa merku konu og í raun allar einstakar konur upp til hópa.
Melissa hefur skapað sér nafn í gegnum árin, en allt frá því að hún opnaði sinn fyrsta stað árið 2009 hefur hún meðal annars hannað Afternoon tea fyrir Konunglega listaháskólann í London ásamt því að skrifa metsölubókina The Italian Baker – sem og rekið nefið ótal sinnum fyrir framan sjónvarpsvélarnar. Við mælum heilshugar með heimsókn á Duse, þar sem upplifunin er æðisleg í alla staði.