Verðlaunasteikin sem matgæðingar elska

Við höfum áður fjallað um hinar óborganlegu sashi-steikur en sashi þýðir marmari á japönsku og vísar til marmarafitusprengingarinnar í steikinni. Slíkar steikur hafa verið fáanlegar hér á landi – þó aðallega á veitingahúsum þar sem þær hafa notið mikilla vinsælda. Einnig hafa þær verið fáanlegar í betri kjötverslunum, sem verður að teljast mikill hvalreki fyrir matgæðinga.

Fyrir þá sem eru ekki með á hreinu af hverju marmarinn er svo mikilvægur þá vísar hann til þess hvernig fitan liggur í kjötinu en við eldun verður slíkt kjöt einstaklega meyrt og bragðgott. Einungis lítil prósenta nautgripa skipar þennan flokk og því skilgreinist sashi-kjöt sem munaðarvara ætluð kjötunnendum sem vilja að ekki eingöngu að kjötið sé meyrt heldur gera kröfu um bragð og áferð. Sashi nýtur mikilla vinsælda um heim allan og þykir á pari við wagu-kjötið fræga sem hefur svipaða eiginleika.

Marmarinn veldur því að ekki skal meðhöndla sashi-kjöt eins og hefðbundna steik. Forðast skal að grilla/steikja kjötið of lengi því ekki er æskilegt að bræða fituna burt. Verður steikin þá bæði seig og bragðlaus. Grillið steikina við miðlungsháan hita, náið góðum hjúp utan um steikina en steikin ætti aldrei að vera vel elduð heldur miðlungs eða minna. Mikilvægt er svo að láta kjötið hvíla áður en það er borið fram og þá skal sáldra góðu sjávarsalti yfir kjötið. Borðið sósulaust því þið viljið njóta bragðsins eins vel og þið getið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka