Það orðspor hefur verið viðloðandi kassavín í gegnum tíðina að þau séu ekki á pari við flöskuvín. Hins vegar hafa kassavín til að bera marga góða kosti sem gera þau heppilegri kost en flöskur.
Fyrst ber að nefna að kassvín duga í allt að sex vikur á meðan opin flaska tórir í eina viku. Kassavín eru líka auðveld að ferðast með, hvort sem út á pallinn eða í útilegurnar – og aldrei neinar áhyggjur af glerbrotum ef vínið fellur til jarðar. Og síðast en ekki síst, þá eru kassavín umhverfisvænari en flöskuvín – með um það bil helmingi minni kolefnislosun en flaska gerir.
Nýverið kom nýtt kassavín á markað undir nafninu Juliet, en það eru Allison Luvera og Lauren de Niro Pipher sem standa þar á bak við. Nafnið á víninu er bein tilvitnun í hið rómaða leikverk Shakespeare og kemur í sívölum kössum sem draga innblástur í litapallettu á götuflísum í Portofino og St. Tropez. Hér er hugsað út í fagurfræðina, eða vínkassa sem sómir sér vel á matarborðinu eða upp í hillu. En það er ekki bara útlitið, því vínið sjálft þykir afbragðsgott – rósavín og hvítvín. Það besta við vöruna er þó það, að hægt er að endurnýta kassann aftur og aftur og kaupa bara vínpoka sem passar í til að fylla á. Að okkar mati er hér um vel lukkaða vöru að ræða – svona utanfrá séð, því við höfum ekki smakkað á innihaldinu.