Hvern hefði grunað að raksápa gæti gert slík kraftaverk að heimilisverkin yrðu leikur einn! Sé veraldarvefurinn skoðaður nánar má sjá að fólk þrífur nánast allt með raksápu og dásamar hana fyrir hversu öflug hún er. Sem fær okkur reyndar til að efast um að hún sé góð fyrir húðina en meintir veraldarvefssérfræðingar fullyrða að annað tengist hinu ekki beint – hvað svo sem það þýðir.
Raksápan er sumsé mjög þétt sem gerir hana heppilega til þrifa. Hún inniheldur ögn af áfengi sem gerir hana sótthreinsandi, hún inniheldur mýkingarefni fyrir húð sem þýðir að það má nota hana til að þrífa leður og svo mætti lengi telja...
Hér eru nokkur sniðug not fyrir raksápuna sem ætti að koma einhverjum verulega á óvart.
Rúmdýna
Það kemst enginn hjá því að fá bletti í rúmdýnuna einhvern tímann á lífsleiðinni. Raksápan leysir þann vanda á augabragði. Makaðu raksápunni á blettinn og láttu standa í 20 mínútur. Þurrkaðu því næst yfir með hreinni og rakri tusku og bletturinn er á bak og burt.
Vaskurinn
Raksápan er fullkomin til að þrífa baðvaskinn. Sápan losar um alla vatns- og kalkbletti úr vatninu, sem eiga það til að setjast að á blöndunartækjum og vaskinum sjálfum.
Spegillinn
Makaðu raksápu á spegilinn til að fá hann skínandi hreinan. Þú getur einnig notað sápuna á handföng og annað sem þarf að fá gljáa og losna undan fitu og fingraförum.
Klósettið
Þetta kemur á óvart en raksápa er sögð afbragð klósetthreinsir. Hún er bakteríudrepandi og sakir þess hversu þykk hún er liggur hún á skálinni í stað þess að renna beint ofan í vatnið.