Eigendur hins vinsæla veitingastaðar BÁL í BORG29 hafa opnað nýjan veitingastað í hinu nýopnaða Hafnartorgi og hefur staðurinn hlotið nafnið BRAND. Staðurinn er staðsettur í nýrri og glæsilegri mathöll í Hafnartorg Gallery, en eigendur eru fagfólkið Hafsteinn Ólafsson og Ólöf Vala Ólafsdóttir.
„Við sjáum Hafnartorg sem virkilega spennandi viðbót við miðbæinn. Þar hefur verið mikil og flott uppbygging og eitthvað fyrir alla að sækja. BRAND býður upp á skemmtilega matarupplifun, þarna er tenging við ferðamennsku og ekki síður Hörpu, þar sem gangleiðin liggur gegnum Hafnartorg. Mikill fjöldi gesta fylgir svo bæði þeim verslunum sem eru á svæðinu, Edition hótelinu og svo bætast við höfuðstöðvar Landsbankans,“ segja Hafsteinn og Ólöf.
„BÁL og BRAND byggja báðir á sömu hugmyndafræðinni um grillaðan mat og gott vín, en okkur langaði að opna annan stað sem hefði rými til að þróa sín eigin sérkenni og því ákváðum við að opna BRAND, en ekki bara annan BÁL stað,“ segja þau.
Hafsteinn hefur átt farsælan feril í keppnismatreiðslu, vann m.a. til gull og silfur verðlauna á Ólympíuleikunum og Heimsleikunum í matreiðslu með kokkalandsliðinu. Einnig hefur Hafsteinn orðið kokkanemi ársins 2010, kokkur ársnins 2017, lent þrisvar sinnum í 2.sæti í kokkur ársins áður en hann vann og var yfirdómari í keppninni “kokkur ársins” 2022.