„Ég fór á Snaps fyrir tilviljun á Menningarnótt og pantaði mér þar Beef bourguignon og það var svo gott að það er búið að vera í kollinum á mér síðan að prófa að gera það heima, sem ég gerði um helgina og það sló heldur betur í gegn. Ótrúlega bragðgóður réttur sem er ekki mikil fyrirhöfn á nema að leyfa honum hreinlega að eldast sjálfur inn í ofni, til dæmis tilvalið að skipta honum út fyrir sunnudagslærið núna á haustdögum. Svo þess virði,“ segir Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir á Döðlur & smjör um þennan klassíska rétt sem hittir alltaf í mark.
„Gott er að nota pottjárnspott svo hægt sé að setja pottinn inn í ofn en auðvitað hægt að leyfa réttinum að eldast í potti á miðlungsháum hita í stað ofnsins. Mæli líka með að nota ferskar kryddjurtir en að sjálfsögðu er hægt að skipta þeim út fyrir þurrkaðar/krydd.“
Naut í rauðvínssósu
fyrir 4-6 manns
- 200 g beikon
- 1,5 kg nautakjöt (gúllas)
- 2 msk. ólífuolía
- 1 laukur
- 4 gulrætur
- 3-4 hvítlauksrif
- 2 msk. hveiti
- 600 ml rauðvín
- 600 ml vatn
- 2 nautakraftar
- 2 msk. tómatpúrra
- 2 lárviðarlauf
- 1 msk. fersk steinselja
- 1 msk. ferskt timjan
- ½ tsk. salt og
- 1 tsk. pipar
- 2 msk. smjör
- 250 g sveppir
- sósujafnari eftir þörfum
Aðferð:
- Stillið ofn á 175°C. Skerið beikonið í litla bita og steikið í pottinum, þangað til að það er vel steikt, takið þá af og leggið til hliðar.
- Þá setjið þið kjötið í pottinn og brúnið það. Skerið gulrætur í bita og laukinn smátt niður. Takið kjötið af pönnunni og setjið hjá beikoninu.
- Setjið þá olíu, gulræturnar og laukinn á pönnuna og steikið í 2-3 mín eða þangað til að laukurinn er orðinn mjúkur, bætið þá mörðum hvítlauk saman við.
- Þá er kjötinu og beikoninu blandað saman við grænmetið ásamt tveimur msk af hveiti. Hrærið létt saman.
- Bætið þá vökvanum og kryddum saman við og hrærið í. Setjið pottinn inn í ofn og leyfið réttinum að krauma í honum næstu þrjá tímana.
- Skerið sveppina gróft og steikið upp úr smjöri og það sakar ekki að hafa smá hvítlauk með.
- Takið þá pottinn úr ofninum og bætið sveppunum saman við. Þá er komið að því að taka lárviðarlaufin úr pottinum og sigta soðið frá kjötinu og grænmetinu.
- Svo takið sigti og leggið yfir pott og síið vökvann frá. Setjið kjötið og grænmetið aftur í pottinn sem það var í á meðan þið leyfið sósunni að þykkna.
- Ef þið hafið stund til þess er gott að leyfa henni að þykkna dálítið sjálf með því að sjóða hana í u.þ.b. 10 mín, ef þið eruð óþolinmóð eins og ég er þá er gott að nota sósujafnara og þykkja sósuna vel.
- Þá er rétturinn klár, ég mæli með að bera hann fram með kartöflumús og jafnvel smá brauði til að geta náð upp allri sósunni af disknum, hún er það góð!
Ljósmynd/Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir