Nýr hamborgarastaður hefur opnað í Mathöll Höfða, er kallast Beef & Buns. Staðurinn býður upp á úrvalsborgara, þar sem eins mikið og hægt er er gert frá grunni.
Við náðum tali af Mána Snæ Hafdísarsyni sem er annar eigandi staðarins. „Ég hafði gengið með þessa hugmynd í maganum í fáein ár, að opna svona stað. Þegar loks kom að því að opna fékk ég fyrrverandi skólafélaga minn, Pétur Kristjánsson, með mér í lið. Hann hefur víðtæka reynslu úr veitingageiranum og er lærður kokkur. Ég er sálfræðingur og fjölskyldufaðir og vildi geta einbeitt mér að því tvennu en á sama tíma látið Beef & Buns verða að veruleika og það er Pétur sem gerir mér það kleift en hann sér um daglegan rekstur,“ segir Máni Snær í samtali.
Var með tilraunaeldhús í tvö ár
„Mér finnst gaman að elda og get verið óttalegur nörd þegar kemur að matseld. Ég beit það í mig að vilja kunna að elda mjög góðan hamborgara heima við, svo ég dembdi mér í lestur bóka og greina, horfði á myndbönd og spjallaði við kokka og eiganda hamborgarastaða og fékk uppskriftir og góð ráð. Eftir um tvö ár af tilraunastarfsemi í eldhúsinu heima, þar sem brauð voru bökuð, nautasteikur hakkaðar, sósur hrærðar og gúrkur sýrðar varð til afskaplega góður hamborgari. Mér fannst ég verða að leyfa öðrum en fjölskyldu og vinum að njóta og úr varð Beef & Buns í Mathöll Höfða,“ segir Máni Snær. Aðspurður segir hann jafnframt að nautnin og ástríðan sem fór í að búa til Beef & Buns hamborgarann, geri það að verkum að staðurinn standi öðrum sambærilegum stöðum framar. Brauðin eru bökuð eftir þeirra eigin uppskrift og kjötið hakkað úr sérvöldum steikum daglega.