Viðurkenndi að hafa fengið hugmyndina á Íslandi

Danski djúpuþjófurinn Johan Bülow.
Danski djúpuþjófurinn Johan Bülow. Ljósmynd/Johan Bülow

Eitt mesta hitamálið á samfélagsmiðlum þessa dagana er meintur stuldur Johans Bülow á íslensku hugviti en á vefsíðu fyrirtækisins er því haldið fram að hann hafi fengið hugmyndina að því að súkkulaðihúða lakkrís sem hafi þótt byltingarkennd hugmynd á þeim tíma. 

Það stenst þó ekki, þar sem Íslendingar voru ljósárum á undan, eins og fram kom í samtali mbl.is við Snorra Pál Jóns­son, fram­kvæmda­stjóra Kólus, á föstudag.

Pétur Thor Gunnarsson, framkvæmdastjóri Freyju, bætti svo um betur í viðtali við Ísland í bítið í morgun.

Oft ferðast til Íslands

Pétur bendir þar á að Bülow hafi fengið hugmyndina að súkkulaðihúðuðum lakkrískúlum í heimsókn til Íslands, þar sem hann bragðað á Djúpum, sem komu á markað árið 2002.

„Hann sagði þessa sögu, er hættur að segja hana núna, en sagði frá því að hann fékk hugmyndina hér. Ég tek ekkert frá honum, hann vinnur frábært verk og gerir flotta hluti,“ segir Pétur.

„Hann hefur ferðast oft til Íslands, elskar Ísland og allt það. Hann fær hugmyndina að vörunni sinni hér. Smakkar Djúpur og segir: „Heyrðu, ég ætla að fara til Danmerkur og ég ætla að búa þetta til þarna.““

Leikarinn Vilhelm Neto vakti meðal annars athygli á þessu máli, sem hreyft hefur hressilega við þjóðarsálinni en sú sem fyrst vakti athygli á þessu og uppskar heimboð til Bulow í kjölfarið var Íris Björg Þorvaldsdóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert