Hollenskur listamaður var með nýstárlega sýningu í Dusseldorf, er hann fékk fullbúið eldhús til að snúast heilar 360 gráður um sjálft sig - og útkoman varð vægast sagt subbuleg.
Zeger Reyers var einn þátttakenda á sýningunni 'Eating the Universe, food in art' - þar sem hann setti upp eldhúsinnréttingu á stalli. Kokkur var á staðnum sem útbjó snarl handa gestum og gangandi, en þegar helmingur matarins var búinn og uppþvottavélin orðin full af skítugu leirtaui - þá yfirgaf kokkurinn eldhúsið með öllum pottum og pönnum liggjandi á borðum, ásamt kryddum, vínflöskum og öðru sem var á boðstólnum.
Eldhúsið byrjaði skyndilega að hreyfast og snérist hægt og rólega um sjálft sig, eða í heilan hring sem tók um 15 mínútur. Allt innan í eldhúsinu byrjaði að renna til hliðanna og falla á gólf og á andstæða veggi. Þannig breyttist eldhúsið í stóran blandara, þar sem hráefni, áhöld og borðbúnaður runnu saman í eitt. Að lokum varð rýmið eins og stórt málverk með meðfylgjandi lykt sem kom eftir snúninginn. Gjörningurinn var vísun í hvernig við ómeðvitað sóum mat og fékk ómælda athygli gesta á sýningunni.