Opnuðu vínstofu og veitingastað í sögufrægu húsi á Akureyri

Yfirkokkurinn Matthew Wickstrom leikur listir sínar í eldhúsum Eyju og …
Yfirkokkurinn Matthew Wickstrom leikur listir sínar í eldhúsum Eyju og Mysu. Ljósmynd/samsett/Facebook

Matar- og vínmenning er hástemmd á Akureyri, þar sem nýjir veitingastaðir og vínhús hafa opnað við góðar undirtektir. Hér vitnum við í staðina Eyju og Mysu sem eru undir handleiðslu Einars Hannessonar, en við náðum tali af Einari sem svarði spurningum matarvefsins nánar.

mbl.is/eyjaak.is

Sögulegt hús með karakter
„Hugmyndin að Eyju fæddist eftir að við komum heim til Akureyrar í kjölfar dvalar í Evrópu þar sem við hrifumst af vínmenningu og litlum vínbörum – sem við sáum að voru einnig farnar að skjóta rótum í Reykjavík. Okkur dreymdi því um að flytja þessa vínmenningu til Akureyrar til að lofa bæjarbúum og gestum að njóta með okkur og opna fyrstu vínstofuna norðan heiða sem sérhæfði sig í gæða vínum. Vínlistinn okkar einkennist af vínum frá litlum lífrænum vínframleiðendum og gæðavínum frá víninnflytjendum sem við vinnum náið með,“ segir Einar í samtali. Þau fundu gamalt sögulegt hús í miðbæ Akureyrar við Hafnarstræti 90, sem byggt var fyrir aldamótin 1900 – og kolféllu fyrir vegna sögu þess og karakters. „Eftir gagngerar endurbætur erum við afar ánægð að geta boðið uppá veitingarými sem er notalegt og nútímalegt um leið og við erum trú sögu hússins,“ segir Einar. 

mbl.is/eyjaak.is

Vikingur á spjóti og geitaostur úr héraði
„Kokkurinn okkar hann Matthew Wickstrom bjó til bistro matseðil sem er frábær með vínsmökkun. Á seðlinum er heimagert barsnakk eins og geitaostur úr héraði með heimagerðu brauði, heimagerður ferskur ostur með flögum og fleiri ljúfengir smáréttir. Bökur eldaðar frá grunni eru sérréttir Eyju bistro. Við bjóðum uppá grænmetisbökur, fiskibökur, kartöflubökur og baka hússins er BBQ nautabaka ásamt eftirréttarbökum. Ekki má gleyma sérréttinum okkar sem er Víkingur á spjóti eða kjötbombur úr lamba- og nautakjöti sem síðan er hjúpað í vöfludeigi, djúpsteikt og borið fram með rabbabaratómatmauki,“ segir Einar. 

Mysa er systir Eyju
Nýlega í sömu húsakynnum Eyju, opnaði Mysa sem er systir Eyju. Á Mysu fókusar kokkurinn Matthew Wickstrom á gamlar íslenskar hefðir hvað varðar varðveislu matvæla, villt hráefni, bestu aðföng úr nágrenninu og sjálfbærni. „Með því að nota bæði gamlar og nýjar aðferðir fléttast maturinn og sagan saman svo úr verður áhrifamikil upplifun. Í gegnum sjö rétta sælkeramatseðil Mysu leika bragðgæði ferskrar og villtrar náttúru við gamalkunnug stef íslenskrar matargerðar og skapa einstæða og djúpa upplifun,“ segir Einar.

mbl.is/eyjaak.is

Matthew byrjaði sinn feril í Portland, Oregon, í Bandaríkjunum þar sem hann vann sig upp á betri veitingastöðum borgarinnar. Því næst lærði hann á Dill í Reykjavík þar sem hann féll fyrir íslenskri náttúru og menningu. „Ástríða hans er að segja sögu og tjá tilfinningar í gegnum mat og drykk, en hann blómstraði síðan undir leiðsögn Nönnu Rögnvaldsdóttur,“ segir Einar. 

mbl.is/eyjaak.is

Sælkeraseðill með vínpörun
Einar segir að á Mysu sé matarupplifun þar sem kannaðar eru fornar matarhefðir og nýjar skapaðar. „Við erum svo heppin að búa í landi þar sem náttúran er kröftug og kyngimögnuð sem aftur endurspeglast í mat og drykk. Á Mysu skapa Matt og magnaða teymið hans einstaka upplifun í notalegu og fallegu umhverfi. Við erum mjög spennt að kanna, læra og skapa nýjar hefðir og hlökkum til að njóta þeirrar vegferðar með gestum okkar. Með Tasting Menu Mysu (sælkeraseðlinum) bjóðum við áfenga og óáfenga drykkjarpörun þar sem allir óáfengu drykkir eru búnir til á veitingastaðnum Mysu. Áfenga drykkjapörun er með sérvöldum vínum frá uppáhalds náttúruvínsbændunum okkar,“ segir Einar að lokum. 

mbl.is/eyjaak.is
mbl.is/eyjaak.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert