„Hér kemur einn þrusugóður réttur sem tilvalið er að elda í Hönnupotti. Kjúklingurinn er hægeldaður og er hann algjört lostæti,“ segir keramik drottningin og matarbloggarinn Hanna um þessa uppskrift.
„Ekki spillir svo meðlætið en karlpeningurinn á heimilinu tók ekki annað í mál en að bjóða líka upp á hrísgrjón. Þeim finnst þau alveg ómissandi til að hella sósunni, sem kemur af kjúllanum, yfir. Svolítill niðurskurður í meðlætinu en alveg svakalega gott allt saman.“
Hægeldaður kjúlli í potti... algjört lostæti
Kjúklingur
- 1 kjúklingur
- 2 msk. blanda af salti, túrmeriki, cayennapipar, hvítklauk og sítrónupipar (U.þ.b. ½ tsk salt, 1 msk túrmerik, tæplega ¼ tsk cayennapipar, 2 – 3 hvítlauksrif (söxuð) og 1 msk sítrónupipar
- 2 msk. olía
Hunangsgljái
- ½ tsk. malaður svartur pipar
- 4 msk. hunang
- 3 msk. olía
- 2 msk. balsamikedik
- 1 hvítlauksrif – saxað eða pressað
- ½ – 1 ferskur chilipipar eða jalapeno – saxað
Pico de gallo
- 4 tómatar -skornir í bita og fræhreinsaðir. Svo skornir i minni bita
- 1 gulur laukur – saxaður smátt
- 2 stk. ferskur rauður chilipipar – saxaðir
- 1 tsk. ancho chili eða chiliflögur
- 2 hvítlauksrif – söxuð
- ½ rauð eða gul paprika
- Ein lúka ferskt kóriander – saxað
- 2 msk. olía
- Safi úr 1 stk lime
Cuacamole
- 2 avokadó – mátulega þroskuð (einnig hægt að nota frysta avokadóbita) – maukuð
- 2 msk. rauðlaukur – saxaður
- 1 tómatur – skorinn í 4 báta… fræhreinsaður og saxaður niður
- 1 salatlaukur (eða 2 litlir skarlottulaukar) – saxaður smátt
- 2 hvítlauksrif – söxuð eða pressuð
- Safi úr 1 stk lime
- 2 msk. ferskt kóriander eða steinselja
- Salt og pipar
Salat með svörtum baunum
- 1 rauðlaukur – saxaður smátt
- 1 – 2 hvítlauksrif – pressuð/söxuð smátt
- 1 rauður chilipipar
- 2 msk. olía
- 400 g svartar baunir – niðursoðnar (safanum hellt frá og þær aðeins skolaðar)
- Salt og pipar
- Fersk steinselja eða kóriander
Verklýsing
Kjúklingur
- Ofninn hitaður í 115 – 120°C (blástur)
- Kryddinu nuddað í kjúklinginn og hann látinn standa og jafna sig í u.þ.b. 20 mínútur. Kjúklingurinn settur í Hönnupott (eða lokað ílát sem þolir að fara í ofn) og olíunni hellt yfir
- Lokið sett á og eldað í 3½ klukkustund eða þar til kjúklingurinn fer að ná 75°C. Gott að nota kjöthitamæli (kjúllin þarf að ná 75°C)
- Þegar kjúklingurinn hefur verið í rétt rúmar 3 klukkustundir í ofninum er upplagt að hella eða pensla gljáanum yfir hann. Hitinn er aðeins hækkaður (180°C) og lokið tekið af pottinum til að fá fallegan gljáa á kjúllann. Látið vera í u.þ.b. 10 mínútur í viðbót og penslað aftur. Passa samt að hann brenni ekki
Hunangsgljái
- Allt sett í pott og hitað – tekið af hellunni og látið kólna
Pico de gallo
- Öllu blandað saman í skál
Guacamole
- Öllu blandað saman í skál
Svartar baunir
- Allt sett saman í skál nema baunirnar og kryddjurtirnar. Baunirnar settar í lokin og svo skreytt með kryddjurtum
Meðlæti: Borið fram með nachos og/eða brauði. Fallegt að skreyta með lime bátum.