Við erum alltaf spennt fyrir nýjungum á markaðinum og þessi hljómar sérlega vel. Hvítlauksbóndinn Hörður Bender kynnir til leiks sérstakar snakk gulrætur sem eru sérlega sætar og bragðgóðar og eru sagðar þær einu sinnar tegundar hér á landi.
Uppskeran kemur í verslanir í dag og verður til sölu í Hagkaup Skeifunni, Garðabæ og Eiðistorgi.
Að sögn Evu Laufeyjar Hermannsdóttur, markaðs- og upplifunarstjóra Hagkaups, er mikil eftirvænting í hennar herbúðum enda leggur Hagkaup ríka áherslu á að styðja íslenska frumkvöðla.
„Hagkaup er ótrúlega stolt af því að styðja íslenska framleiðslu og frumkvöðla og það gleður okkur að Hörður Bender, eini hvítlauksbóndinn á landinu ákvað hann að sá fyrir gulrótum í fyrra og nú er fyrsta uppskeran klár. Um er að ræða sérlega gómsætar og sætar snakk gulrætur sem enginn má framhjá sér fara,“ segir Eva Laufey en þess má jafnframt geta að hvítlauksuppskeran er væntanleg eftir tvær vikur.
„Það skiptir ótrúlega miklu máli að við ræktum sem mest af íslensku grænmeti, eins og staðan er núna er ekki nóg af grænmeti og því kærkomið að hafa frumkvöðul með okkur í liði í Hagkaup sem bókstaflega gengur í verkið – sáir fræjum, hlúir að og útkoman stórkostleg. Gulræturnar koma í búðir í dag og þetta verður hinn einni sanni nammibar í grænmetisdeildinni. Fyllt verður á gulræturnar nokkrum sinnum í viku og því má segja að ferskara verður það vart en gulræturnar eru teknar upp deginum áður en þær koma í búðirnar.“