Mexíkó lasagna sem þú verður að smakka!

Ljósmynd/Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir

„Ég er ótrúlega veik fyrir öllu sem heitir Mexíkó eitthvað, ég get samt ekki sagt að ég sé mjög hrifin af sterkum mat og því vil ég frekar hafa þetta allt frekar milt en bragðmikið, það er mitt kombó!“ segir Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir matarbloggari á Döðlur & smjör um þessa uppskrift.

„Það er bara eitthvað við samsetninguna á þessum mat sem gerir það að verkum að maður sækir svo sterkt í, eins og Mexíkó súpa það er gefið að 95% landsmanna finnst hún æði.“

„Lengi vel hef ég „dassað“ mig til þegar ég er að gera Mexíkó lasagna en ákvað að skrifa niður að þessu sinni hvernig ég geri það og deila með ykkur. Vona svo sannarlega að ykkur líki vel. Það að rífa kjúklingakjötið niður var algjör „game changer“ fyrir mig og gerir það meir að lasagna heldur en rétt með kjúklingabitum í. Þegar þið sjóðið kjúklinginn er ótrúlega gott að eiga hitamæli en ég á einn sem ég keypti í Kokku og ég mæli svo með ferð þangað til að kaupa slíkan því ég nota hann mjög mikið bæði í bakstur og eldamennsku,“ segir Guðrún og við hlýðum henni að sjálfsögðu.

Mexíkó lasagna

  • 500 g kjúklingabringur
  • 2 msk. olía
  • ½ rauðlaukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 1 dós niðursoðnir tómatar
  • 150 ml vatn
  • ½ nautateningur
  • 200 g svartar baunir
  • 200 g maís
  • 2 msk. rjómaostur
  • 1 tsk. sriracha sósa (má sleppa)
  • 2 tsk. mexíkó krydd (nota frá Pottagöldrum)
  • ½ tsk. cumin
  • salt & pipar

Aðferð:

  1. Setjið vatn í pott og fáið suðuna upp. Þá eru bringurnar settar ofan og soðnar í u.þ.b. 10-15 mín. Ef þið hitamælið þá eiga þær að vera 70°c.
  2. Takið þá bringurnar úr pottinum og skerið niður í bita eða rífið þær niður í hrærivél með hræraranum. Tekur 2-3 mín.
  3. Á meðan bringurnar eru að sjóða, takið pönnu, setjið olíu á hana og skerið laukinn og hvítlauk niður og bætið út á pönnuna.
  4. Steikið í 1-2 mín og bætið þá hinum hráefnunum saman við og leyfið að sjóða á miðlungshita í 10 mín.
  5. Smakkið til og saltið og piprið eftir smekk. Þá er kjúklingnum blandað saman við og leyft að malla í 3-4 mín áður en þið setjið allt saman.

Samsetning

  • 3 stórar vefjur
  • rjómaostur
  • ostasósa
  • rifinn ostur

Aðferð:

  1. Stillið ofn á 200°C. Byrjið á því að smyrja vefjurnar, tvær með rjómaosti og eina með ostasósu.
  2. Setjið 1/3 af kjúklingablöndunni í eldfast mót og vefju með rjómaost ofan á með og látið rjómaostinn snúa upp.
  3. Dreifið handfylli af osti yfir og endurtakið. Kjúklingablanda, vefja með ostasósu og ostur. Þriðja lag kjúklingablanda, vefja með rjómaost og vel af osti yfir í lokin.
  4. Setjið inn í ofn og leyfið að bakast í 20 mín eða þangað til að osturinn er farinn að brúnast.
  5. Berið fram með góðu salati, flögum, gucamole og sýrðum rjóma.
Ljósmynd/Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert