Leyndardómurinn um Sæmund afhjúpaður

Við rákumst á auglýsingu hér á vef mbl.is þar sem gamla góða kremkexið er sett saman með Herrafataverzlun Kormáks og Skjaldar - og það vakti áhuga okkar. Við heyrðum í Mörtu Marteinsdóttur hjá Frón sem fræddi okkur nánar um málið. 

Kexverskmiðjan Esja framleiddi fyrr á árum mjög vinsælt vanillukex, en þáverandi forstjóri var Sæmundur Ólafsson. Umrætt kex var formlega nefnt í höfuðið á honum, Sæmundur, og gekk í daglegu tali undir því nafni. 

„Þegar Esja sameinast Frón árið 1970 heldur þessi venja áfram. Kremkexið frá Frón fær þetta sama Sæmundar-viðurnefni og sparifötunum bætt við í ljósi þess að kremkex er kannski aðeins meira spari en gamla vanillukexið - sem sagt Sæmundur í sparifötunum. Sæmundar-nafnið er því frá dögum Esju, en samt sem áður er Kremkexið frá Frón hinn upphaflegi og eiginlegi Sæmundur í sparifötunum. Og þetta kemur ekki frá fyrirtækjunum, Esju eða Frón. Þetta er bara eitthvað sem varð til úti í samfélaginu,„ segir Marta í samtali. 

Sæmundur, Sæmundur og Sæmundur
Hvernig varð þessi umrædda auglýsing til? „Tengingin á milli Frón og Herrafataverzlunar Kormáks og Skjaldar kemur í gegnum auglýsingastofuna Pipar/TBWA sem stakk upp á þessu samstarfi. Í raun og veru bara til þess að gera eitthvað skemmtilegt og tengja þeirra spariföt við okkar 'spariföt'. Við lögðum mikið upp úr því að módelin væru alvöru Sæmundar og svo leyfðum við bara hugmyndinni að skína. Ljósmyndirnar voru teknar á KEX sem er auðvitað húsnæðið sem hýsti gömlu Frón-kexverksmiðjuna, bara svona til að gera þetta enn skemmtilegra,“ segir Marta að lokum. 

Sæmundur, Sæmundur og Sæmundur hér saman á mynd.
Sæmundur, Sæmundur og Sæmundur hér saman á mynd. mbl.is/Pipar/TBWA
Kremkexið frá Frón er iðulega kallað 'Sæmundur í sparifötunum'.
Kremkexið frá Frón er iðulega kallað 'Sæmundur í sparifötunum'. mbl.is/Frón
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert