Lúxus lax með geggjuðu meðlæti

mbl.is/Linda Ben

„Ég er með algjört æði fyrir sætkartöflumús þessa dagana og því er laxinn að sjálfsögðu borinn fram með slíkri. Það er svo einfalt að búa hana til, hún inniheldur aðeins tvö innihaldsefni og er algjört lostæti,“ segir Linda Ben og við tökum heilshugar undir það með henni.

„Laxinn er eldaður á pönnu upp úr smjörsteiktum lauk, hvítlauk, engiferi og chilí, toppaður með örlitlu hunangi. Salatið samanstendur af grænkáli og eplum sem gefur ferskan og sætan tón í réttinn, algjörlega ómissandi að mínu mati.“

Lax með sætkartöflumús með haustlegu yfirbragði

  • 2 sætar kartöflur
  • 800 g lax
  • 50 g smjör
  • 1 laukur
  • 3 hvítlauksrif
  • 1 cm engifer
  • 1/3 tsk. þurrkaðar chilíflögur
  • Salt og pipar
  • Ferskt timjan (líka hægt að nota þurrkað)
  • 1 msk. hunang
  • 75 g smjör
  • Grænkál
  • 1 epli

Aðferð:

  1. Skerið sætu kartöflurnar í þrennt svo þær passi betur í pottinn. Látið vatn í pottinn þannig að það fljóti yfir kartöflurnar, sjóðið þar til þær eru mjúkar í gegn.
  2. Ef þú ert með pönnu sem má fara inn í ofn skaltu kveikja á ofninum og stilla á 200°C, undir- og yfirhita.
  3. Á meðan sætu kartöflurnar sjóða, skerið þá laukinn smátt niður, steikið á pönnu upp úr smjöri, rífið hvítlauksgeirana og engiferið út á pönnuna.
  4. Skerið laxinn í fernt, kryddið með salti og pipar. Færið laukinn til á pönnunni svo pláss myndist fyrir laxinn. Setjið svolítið af lauknum ofan á laxinn, kryddið með chilí, timjan og setjið örlítið hunang yfir. Steikið laxinn á pönnunni í nokkrar mín og setjið svo pönnuna inn í ofn þar til hann er bakaður í gegn. Ef þú ert með pönnu sem má ekki fara inn í ofn þá lækkarðu hitann undir pönnunni og setur lokið á hana þar til laxinn er eldaður í gegn.
  5. Taktu hýðið af sætu kartöflunum og settu þær í skál. Gott að setja þær í hrærivélina. Settu smjörið ofan í skálina og hrærðu öllu saman þar til myndast hefur mús.
  6. Setjið sætkartöflumús á diskana og setjið svo laxinn yfir með kryddaða lauknum. Skerið grænkálið og eplin niður, dreifið yfir laxinn.
Gómsætur lax með sætkartöflumús og grænkáls-eplasalati.
Gómsætur lax með sætkartöflumús og grænkáls-eplasalati. mbl.is/Linda Ben
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert