Í miðri Tennishöllinni í Kópavogsdal er veitingastað að finna sem ber nafnið Hjartað – kærkomin viðbót í dalinn að sögn þeirra sem þar búa og starfa.
Staðurinn er rekinn af Tennishöllinni en Úlfur Uggason er yfirkokkur staðarins og hefur starfað víða á fínum veitingahúsum, þar á meðal í Frakklandi og í Noregi. Við náðum tali af Jónasi Páli Björnssyni framkvæmdastjóra Tennishallarinnar, sem segir að á staðnum slái hjarta tennis- og padel-íþróttanna á Íslandi.
„Við fórum af stað fyrir rúmu ári og má segja að þetta sé enn eitt best geymda leyndarmál Kópavogs. Tilgangurinn er í raun að búa til enn betri stemningu í höllinni og bjóða upp á góðan og heilsusamlegan mat á góðu verði,“ segir Jónas í samtali.
Heitur matur í hádeginu
Hjartað býður upp á heitan mat í hádeginu, þar sem matseðillinn er einfaldur og kokkurinn leggur áherslu á það ferskasta hverju sinni. „Það er fiskur dagsins alla virka daga. Mánudaga til fimmtudaga er einnig boðið upp á kjúklingarétt dagsins og á föstudögum bjóðum við upp á lambalæri. Úlfur býr til mjög góða fiskrétti úr fersku hráefni og fiskréttirnir eru hvað vinsælastir hjá okkur,“ segir Jónas.
Staðurinn er öllum opinn – en Hjartað leggur mikla áherslu á hollan og góðan mat fyrir íþróttafólkið sem stundar sitt sport í höllinnni, sem og aðra gesti og gangandi. „Enn sem komið er vita ekki margir af staðnum, en einkaþjálfarar Sporthússins hafa verið duglegir að sækja staðinn í hádeginu. Þannig að það má segja að staðurinn og hollu réttirnir hans Úlfs séu að fá góð meðmæli,“ segir Jónas.
Tilvalið fyrir hópefli
Jónas segir að heimsókn í Tennishöllina sé góður kostur fyrir vinnufélaga sem vilja þétta hópinn og gera eitthvað skemmtilegt – og huga að heilsunni í leiðinni. „Það er tilvalið fyrir hópa að koma um morguninn eða í hádeginu og taka leik saman í tennis eða padel – og geta þá fyrirframpantað hádegismat eftir hreyfinguna sem getur verið tilbúinn um leið og leik og sturtu er lokið. Þannig er hægt að ná góðum starfsmannahittingi, góðri hreyfingu og heilsusamlegum hádegisverði á frekar stuttum tíma,“ segir Jónas og bætir við: „Slíkir hópar geta einnig komið t.d. á föstudags- og laugardagskvöldum og spilað padel eða fengið tenniskynningu. Við bjóðum svo upp á ýmis þjónustutilboð á eftir sem þarf þó að panta með nokkurra daga fyrirvara. Hópar geta fengið þriggja rétta veislumáltíð, pítsuveislu eða farið í vínsmökkun hjá fyrirtækinu Tíu vín, ásamt léttum réttum – og það getur myndast skemmtileg stemning í hópum á svona viðburðum,“ segir Jónas að lokum.
Við mælum heilshugar með að kíkja í góðan málsverð í Tennishöllina, en Hjartað er opið með heitan mat í hádeginu alla virka daga frá kl. 11.30-14.00. Kaffihúsið er opið allan daginn og á kvöldin er boðið upp á búst og pítsur bakaðar í steinofni.