„Ég er algjör sósukerling og við eiginlega bara algjör sósufjölskylda. Mér finnst því mikilvægt að gera góða sósu og nóg af henni með góðri máltíð!“ segir Berglind Hreiðarsdóttir á Gotteri.is og við tökum heilshugar undir það. Hér býður hún okkur upp á dýrindis lambafile og rauðvínssósu sem hún setur sveppi í. Með þessu er svo kartöflugratín sem er löðrandi í osti – alveg eins og við viljum hafa það!
Hátíðleg rauðvínssósa með sveppum
Fyrir um 4-5 manns
Rauðvínssósa uppskrift
- ½ laukur
- 150 g portobello sveppir
- 30 g þurrkaðir skógarsveppir
- 50 g smjör
- 600 ml vatn
- 2 pk. TORO rauðvínssósuduft
- 2 lárviðarlauf
- Sletta af rauðvíni
- 1 msk. kjötkraftur
- Salt, pipar, cheyenne pipar
Aðferð:
- Saxið laukinn smátt og skerið portobello sveppina niður.
- Steikið við meðalhita upp úr smjöri þar til mýkist og saltið og piprið eftir smekk.
- Hellið um 500 ml af vatninu saman við og hrærið sósuduftinu saman við. Náið upp suðunni og lækkið þá hitann vel.
- Setjið lárviðarlaufin í pottinn og leyfið sósunni að malla, veiðið síðan laufin uppúr áður en sósan er borin fram.
- Smakkið til með rauðvíni, krafti og kryddum.
Kartöflugratín uppskrift
- Um 700 g kartöflur
- 1 laukur
- Um 500 ml rjómi
- Rifinn ostur (4 osta blanda)
- Salt og pipar
Aðferð:
- Hitið ofninn í 190°C.
- Flysjið kartöflurnar og skerið í þunnar sneiðar, skerið laukinn einnig í þunnar sneiðar.
- Raðið á víxl í eldfast mót og saltið og piprið á milli laga.
- Hellið rjómanum yfir allt svo rétt fljóti upp fyrir efstu kartöflurnar.
- Setjið í ofninn í um 40 mínútur, bætið þá ostinum ofan á og bakið í um 15 mínútur í viðbót.
Lambafile
- 4 lambafile sneiðar
- Bezt á lambið kryddblanda
- Smjör og ólífuolía
Aðferð:
- Snyrtið og þerrið kjötið og hitið ofninn í 180°C.
- Skerið tíglamynstur grunnt ofan í fituhliðina á kjötinu og nuddið Bezt á lambið kryddi vel ofan í raufarnar.
- Hitið smjör og ólífuolíu í bland á pönnu og leggið fituhliðina á kjötinu niður og steikið þar til hún verður stökk og vel brúnuð. Snúið þá kjötinu og rétt brúnið á hinni hliðinni.
- Færið yfir í eldfast mót og eldið í ofni þar til þið náið þeim kjarnhita sem þið óskið. Gott er að miða við 46-53°C eftir því hversu mikið þið viljið hafa kjötið eldað.
- Hvílið kjötið síðan í um 10 mínútur áður en það er skorið í þunnar sneiðar.
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir