Guðdómlegt lambafile með með geggjaðri sósu

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

„Ég er algjör sósukerling og við eiginlega bara algjör sósufjölskylda. Mér finnst því mikilvægt að gera góða sósu og nóg af henni með góðri máltíð!“ segir Berglind Hreiðarsdóttir á Gotteri.is og við tökum heilshugar undir það. Hér býður hún okkur upp á dýrindis lambafile og rauðvínssósu sem hún setur sveppi í. Með þessu er svo kartöflugratín sem er löðrandi í osti – alveg eins og við viljum hafa það!

Hátíðleg rauðvínssósa með sveppum

Fyrir um 4-5 manns

Rauðvínssósa uppskrift

  • ½ laukur
  • 150 g portobello sveppir
  • 30 g þurrkaðir skógarsveppir
  • 50 g smjör
  • 600 ml vatn
  • 2 pk. TORO rauðvínssósuduft
  • 2 lárviðarlauf
  • Sletta af rauðvíni
  • 1 msk. kjötkraftur
  • Salt, pipar, cheyenne pipar

Aðferð:

  1. Saxið laukinn smátt og skerið portobello sveppina niður.
  2. Steikið við meðalhita upp úr smjöri þar til mýkist og saltið og piprið eftir smekk.
  3. Hellið um 500 ml af vatninu saman við og hrærið sósuduftinu saman við. Náið upp suðunni og lækkið þá hitann vel.
  4. Setjið lárviðarlaufin í pottinn og leyfið sósunni að malla,  veiðið síðan laufin uppúr áður en sósan er borin fram.
  5. Smakkið til með rauðvíni, krafti og kryddum.

Kartöflugratín uppskrift

  • Um 700 g kartöflur
  • 1 laukur
  • Um 500 ml rjómi
  • Rifinn ostur (4 osta blanda)
  • Salt og pipar

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 190°C.
  2. Flysjið kartöflurnar og skerið í þunnar sneiðar, skerið laukinn einnig í þunnar sneiðar.
  3. Raðið á víxl í eldfast mót og saltið og piprið á milli laga.
  4. Hellið rjómanum yfir allt svo rétt fljóti upp fyrir efstu kartöflurnar.
  5. Setjið í ofninn í um 40 mínútur, bætið þá ostinum ofan á og bakið í um 15 mínútur í viðbót.

Lambafile

  • 4 lambafile sneiðar
  • Bezt á lambið kryddblanda
  • Smjör og ólífuolía

Aðferð:

  1. Snyrtið og þerrið kjötið og hitið ofninn í 180°C.
  2. Skerið tíglamynstur grunnt ofan í fituhliðina á kjötinu og nuddið Bezt á lambið kryddi vel ofan í raufarnar.
  3. Hitið smjör og ólífuolíu í bland á pönnu og leggið fituhliðina á kjötinu niður og steikið þar til hún verður stökk og vel brúnuð. Snúið þá kjötinu og rétt brúnið á hinni hliðinni.
  4. Færið yfir í eldfast mót og eldið í ofni þar til þið náið þeim kjarnhita sem þið óskið. Gott er að miða við 46-53°C eftir því hversu mikið þið viljið hafa kjötið eldað.
  5. Hvílið kjötið síðan í um 10 mínútur áður en það er skorið í þunnar sneiðar.
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert